Pólsk stjórn­völd hyggjast reisa landa­mæra­girðingu við landa­mærin að Hvíta-Rúss­landi sökum sí­vaxandi fjölda fólks sem freistar þess að komast yfir þau. Pól­verjar saka Hvít­rússa um að standa að baki fjölguninni og það sé gert í pólitískum til­gangi, til að svara refsi­að­gerðum Evrópu­sam­bandsins gegn stjórn ein­ræðis­herrans Alexander Lúka­sjen­kó.

Girðingin verður sam­kvæmt pólska varnar­mála­ráð­herranum Mariusz Blaszczak tveir og hálfur metri á hæð en landa­mærin eru um 400 kíló­metrar að lengd. Stjórn­völd hafa nú þegar sent um 900 her­menn að landa­mærunum til að að­stoða landa­mæra­verði og segir ráð­herrann að fleiri verði sendir. Tæp­lega tvö þúsund manns hafa reynt að komast til Pól­lands frá Hvíta-Rúss­landi það sem af er mánuðinum en í fyrra voru það 122. Stærstur hluti fólksins er sendur aftur til baka en aðrir fluttir til mót­töku­stöðva í Pól­landi. Svipað er upp á teningnum á landa­mærum Lett­lands og Litáen að Hvíta-Rúss­landi, sí­fellt fleiri koma þangað frá Hvíta-Rúss­landi. Litáar eru nú að reisa girðingu á landa­mærunum sem á að vera til­búin eftir um ár.

Evrópu­sam­bandið segir um hefndar­að­gerðir að ræða af hálfu hvít­rúss­neskra stjórn­valda. Refsi­að­gerðunum var komið á eftir að blaða­maðurinn og stjórnar­and­stæðingurinn Roman Prota­sevich var hand­tekinn í Minsk eftir að flug­vél með hann innan­borðs var gert að lenda þar. Lúka­sjen­kó hefur áður sagt að yfir­völd muni ekki hafa af­skipti af þeim sem reyna að komast yfir landa­mæri til ná­granna­ríkja. Hann sakaði í gær Pól­verja um að reyna að koma af stað á­tökum á landa­mærunum.

For­sætis­ráð­herrar Pól­lands, Eist­lands, Lett­lands og Litáen fóru þess á leit við Sam­einuðu Þjóðirnar í gær að miðla málum í deilunum við Hvíta-Rúss­land. Þeir segja að verið sé að „mis­nota flótta­fólk“ og að ræða þurfi á­standið í öryggis­ráðinu.