Eva María Þórarinsdóttir Lange, er einn þriggja eigenda ferðaskrifstofunnar Pink Iceland, sem sérhæfir sig ferðum hingað til lands með áherslu á hinsegin ferðalanga. Þó er stærstur hluti viðskiptavina Pink Iceland gagnkynhneigð pör sem koma hingað til lands að gifta sig. „Okkar sérhæfing er á Íslandi og við einbeitum okkur að því hvernig er fyrir fólk að koma hingað,“ segir hún í samtali við Fréttablaðið. „En það er alltaf hætta á að það sé bakslag í réttindabaráttu. Við sjáum það núna gerast, og finnum fyrir því hjá okkur.“

Eva María segir að ferðahegðun fólks sé að breytast vegna Úkraínu og flugum frá Bandaríkjunum til Evrópu sé að fækka. Þó virðist Ísland vera tekið út fyrir sviga í því samhengi. „Ísland er ekki inni í þeirri mynd, fólk lítur á Ísland sem öruggan áfangastað. Bæði vegna þess að hér er öruggt að vera hinsegin og svo út af öðrum öryggistengdum þáttum.“

Veruleiki erlendra ferðamanna

Hún segist gjarnan fá spurningar á þá leið, hvers vegna þurfi fyrirtæki á borð við Pink Iceland, þegar allt sé „svo frábært á Íslandi.“

Eva María segist þá benda á að allur kúnnahópur fyrirtækisins sé erlendis frá, og þeirra veruleiki heima sé því öðruvísi. Hún segist einnig spurð hvers vegna þær séu ekki bara í hefðbundnum brúðkaupsbransa, „af því að við erum með fleiri gagnkynhneigð brúðkaup. En við viljum ekki gefa afslátt af þessum gildum sem við stöndum fyrir. Það laðar að meira af bæði hinsegin- og gagnkynhneigðum pörum sem eru þannig þenkjandi. Það eru þannig pör sem við viljum fá.“

Hún segir þá stefnu vera einskonar filter, sem tryggi að þau fái ekki til sín fólk sem er hómófóbískt.

„Ég var að hitta par núna í morgun, hún er dönsk og hann er Bandaríkjamaður. Þau sögðu að ein af mörgum ástæðum fyrir að þau völdu Ísland væri að þau gætu verið á stað þar sem vinahópnum þeirra, sem að stórum hluta er hinsegin, liði vel.“


Segir breytinguna áþreifanlega

Aðspurð hvort að hún finni fyrir breytingu í kjölfar uppgangs öfgaafla í Evrópu, svarar Eva María játandi. „Það er áþreifanleg breyting núna,“ segir hún. „Og sem dæmi má nefna að sem hinsegin ferðamaður biður þú helst ekki um hjálp nema þú vitir að þú sért að spyrja manneskju sem er tilbúin að veita þér slíka aðstoð.“

Eva María segir að þegar hún heimsæki land sem hún þekki ekki til, byrji hún á að gúggla hvort að einhver hinsegin starfsemi sé á viðkomandi áfangastað. „Einfaldasta myndin af því er einhver hinsegin bar eða kaffihús,“ segir hún. „Ég tala fyrir mig og Birnu konuna mína, en við notum þetta sem hálfgerðan öryggispunkt. Ef þetta er stórborg sem er ekki þekkt fyrir að vera hinsegin-friendly, byrjar maður til dæmis þar og hefur samband við viðkomandi stað.“

Eva María Þórarinsdóttir Lange, einn þriggja eigenda ferðaskrifstofunnar Pink Iceland.

Forðast að leiða karla

„Ég reyni bara að forðast að leiða manneskju af sama kyni og ég, alls staðar. Meira að segja á Íslandi,“ segir Daníel E. Arnarson, framkvæmdastjóri Samtakanna ‘78. „Ég geri þetta til að verja sjálfan mig, en maður verður ekki endilega fyrir áreitni eða ofbeldi. Maður fær spurningar.“

Aðspurður um upplifun sína sem samkynhneigður ferðamaður erlendis nefnir hann ferðalag á Írlandi sem dæmi, þar sem hann ferðaðist með kærasta. „Þar var pínu vesen að fá tvíbreitt rúm. Þau vildu endilega setja tvö einbreið rúm í herbergið þrátt fyrir að ég hafi beðið um tvíbreitt,“ segir hann.

„Það örlar á þessu enn þá. Mann myndi langa að segja að þetta skipti ekki máli, og við séum komin lengra, en það er ekki þannig. Hinsegin fólk þarf alltaf að vera á varðbergi.“

Daníel bætir við að þetta kunni að hljóma fyrir einhverjum eins og smámál. „En það er ekki gert ráð fyrir að tveir karlar deili rúmi eða leiðist. Eða deili pínulitlum kossi á almannafæri. Svo sér maður gagnkynhneigt fólk í mökk-sleik í heitum pottum. Ef ég væri að þessu yrði mér bara vísað út.“

Ferðast ekki hvert sem er

Aðspurður um Evrópulönd sem hann treysti sér ekki til að heimsækja í dag, nefnir hann Ungverjaland og Pólland. „Það eru ákveðin lönd sem ég myndi bara ekki fara til. En svo er líka hægt að nefna lönd sem trans fólk myndi ekki ferðast til núna. Orðræðan í Bretlandi er ógeðsleg þegar kemur að trans fólki. Ég veit ekki hvernig er að vera trans, en ég get ímyndað mér að það sé ekki skemmtilegt að ferðast þangað.“

Daníel segir fordómana ekki endilega birtast í því að fólk sé að öskra á hinsegin fólk úti á götu, heldur frekar í öráreitni og að ekki sé gert ráð fyrir hinsegin samfélaginu.

„Mér hefur fundist íslensk ferðaþjónusta gera ansi vel. Ég er alltaf að sjá hinsegin túrista. Mér finnst það frábært og ég vil að Ísland sé landið sem hinsegin fólk getur heimsótt án þess að þurfa að pæla í þessu.“

Telja íslenskri löggjöf ábótavant

Samkvæmt umfangsmikilli rannsókn ferðasíðunnar Asher & Lyric, sem sérhæfir sig í ferðaöryggi og The New York Times, The Guardian, Forbes og The Times hafa vitnað til, er Ísland í 11. sæti á heimslista yfir öruggustu lönd heims fyrir hinsegin ferðamenn, fyrir ofan Sviss og á eftir Frakklandi. Efst á listanum er Kanada.

Það sem rannsakendur vísa til, sem ýtir Íslandi út af topp 10 listanum, er að vernd hinsegin fólks sé ekki tryggð í íslenskum lögum, samkvæmt núgildandi stjórnarskrá. Þá er einnig talið að íslenska löggjöfin skilgreini hótanir gegn hinsegin hópum sem hótunarbrot en ekki sem hatursglæpi.

Daníel E. Arnarson, framkvæmdastjóri Samtakanna 78.
Fréttablaðið/Eyþór