Polestar bílamerkið er nú komið á klakann fyrir alvöru, en Brimborg hefur hafið sölu á Polestar 2 rafbílnum. Í gær var haldin kynning á bílnum fyrir blaðamenn og mun nýr sýningarsalur verða opnaður í húsakynnum Brimborgar strax í næstu viku.

Hægt verður þá að panta Polestar 2 gegnum netið á slóðinni polestar.com/is svipað og gert er hjá Tesla og er grunnverð bílsins 6.750.000 kr. Bílnum er ætlað að keppa við bíla eins og Tesla Model 3 Performance og BMW i4.

Polestar 2 er stór fimm dyra hlaðbakur og er hann framleiddur í sömu verksmiðju og Volvo XC40 rafbíllinn í Luqiao í Kína, en þeir deila einmitt CMA undirvagninum.

Framleiðsla hans hófst í mars í fyrra og er um fyrsta rafbíl merkisins að ræða en Polestar 1 var tengil­tvinnbíll sem framleiddur var í takmörkuðu magni.

Drægi hans er allt að 540 km samkvæmt WLTP-staðlinum í 231 hestafla framdrifsútgáfunni, en 480 km með tveimur rafmótorum. Auk þess getur hann dregið allt að 1.500 kg.

Mikið er lagt upp úr öryggi í hönnun Polestar 2 en hann fékk hæstu einkunn rafbíls í árekstra­prófi Euro NCAP. Hann aftengir rafhlöðuna við árekstur og er hönnunin á þann veg að hún er sérstaklega varin.

Fjórhjóladrifni bíllinn er samt talsvert öflugur eða 408 hestöfl og er aðeins 4,7 sekúndur í hundraðið. Í Performance-útgáfu kemur hann með stillanlegri Öhlins fjöðrun og öflugum Brembo bremsum.