Með fréttatilkynningunni sendir Polestar frá sér mynd af bílnum með aðeins léttum dulbúningi. Þar sést greinilega að um hærri bíl en Polestar 2 er að ræða sem byggir þó á útliti hans. Sama svip má sjá á bílunum að framanverðu með samskonar hönnun á grilli og ljósum. Polestar 3 virðist líka vera með innfelldum hurðarhandföngum. Bíllinn mun nota sama SPA2 undirvagn og nýr Volvo XC90 en þó með einhverjum breytingum því að Polestar 3 verður ekki með þriðju sætaröðinni. Hann verður smíðaður í sömu verksmiðju í Suður-Karólínu og mun mesta salan fara fram í Bandaríkjunum.