Pókerspilarar um heim allan eru hvattir til að vera á varðbergi eftir hvarf Jóns Þrastar Jónssonar, sem ekkert hefur spurst til frá því 9. febrúar. Jón Þröstur hafði verið að spila póker á móti í Dublin en hvarf á dularfullan hátt um nóttina. Mbl.is greindi fyrst frá.

PokerScout fjallar um hvarfið og hvetur pókerspilara til að hafa varann á. Pókerspilarar geti verið skotmörk glæpamanna því þeir beri stundum á sér mikið reiðufé. Þetta gildi sérstaklega um pókerspilara sem flakki landa á milli til að spila. Þeir geti verið ómeðvitaðir um hættur.

Fjölskylda og vinir Jóns Þrastar hafa leitað hans allt frá hvarfi. Lögreglan vinnur að því að meta vísbendingar sem borist hafa en auk þess hefur Interpol lýst eftir Jóni.