Hljóm­sveitin Hatari gaf út sína fyrstu breið­skífu, Neyslutrans, í dag en plötunni var stolið og dreift á vefnum daginn áður en hún kom út. „Okkur bárust þær fregnir að Neyslutrans hafi verið lekið um há­degis­leytið í gær,“ segir fram­kvæmdar­stjóri Svika­myllu í sam­tali við Frétta­blaðið.

„Það var ekki var búið að tryggja að varnir fyrir­tækisins gætu staðist á­fergju að­dá­enda í að komast yfir plötuna.“ Þetta kom teyminu á ó­vart en tryggt verður að á­líka stuldur komi ekki fyrir aftur „Öryggis­deild Svika­myllu er komin í málið,“ bætir fram­kvæmdar­stjórinn við.

Hökkuðu sig inn á tölvu­póst

Frétta­blaðið hefur heimildir fyrir því að ó­prúttnum aðilum hafi tekist að hakka sig inn á tölvu­póst­fang með­lims sveitarinnar og hafi komist yfir plötuna í gegnum WeTrans­fer vef­slóð. „Það verða af­leiðingar við þessu en við erum þegar búin að segja upp 20 starfs­mönnum í öryggis­deildinni vegna brestsins.“

Það sé þó skiljan­legt að að­dá­endur hafi ekki getað setið á sér enda hafi biðin eftir plötunni verið löng. „Marg­miðlunar­verk­efnið og neyslu­varan Hatari hefur unnið hörðum höndum að gerð þessa stór­virkis í dýflissu Hatara síðustu mánuði.“ Platan er fjöl­breytt og að henni koma margir lista­menn.

Hér má sjá plötuumslag Neyslutrans.

Sam­einast gegn síð­kapítal­ismanum

„Gestir plötunnar eru allir sér­fræðingar á sínu sviði og sam­þykktu að sam­eina krafta sín gegn síð­kapítal­ismanum með þátt­töku sinni í verk­efninu.“ Mark­mið plötunnar er að fagna hruni sið­menningarinnar og flýta fyrir dóms­dags­ferlinu.

Lista­menn sem fram koma á plötunni eru meðal annars Pétur Björns­son fiðlu­leikari, tón­listar­konan GDRN, dóms­dags­rapparinn Davíð Þór, einnig þekktur sem Svarti Lax­ness, palestínski tón­listar­maðurinn Bashar Murad, kór­stjórinn Frið­rik Margrétar og rapp­þrí­eykið CYBER, sem kemur til með að ferðast með hljóm­sveitinni um Evrópu í lok mánaðar.

Leðurólarnar fengu ekki að spila stórt hlutverk í myndrænni hlið nýrrar plötu Hatara.
Fréttblaðið

Breyta um í­mynd

Fram­kvæmdar­stjóri Svika­myllu segir við­brögð við plötunni ekki hafa látið á sér standa og að þau hafi verið yfir­gnæfandi góð. „Það hefur skapast mikil um­ræða um inni­haldið, symból­is­mann og mynd­rænu hlið plötunnar nú þegar sem er mikil­vægur liður í á­ætlun fyrir­tækisins.“

Hljóm­sveitin hefur að tekið U beygju frá fyrri í­mynd sinni við gerð plötu­um­slagsins og vilji þannig sína á sér aðra hlið. Á um­slaginu sést ung stúlka í hreinu um­hverfi bera ein­kennandi grímu trommugimps hatara. „Út á við hefur sveitin hingað til alla jafna verið þekkt fyrir leður­ólar og latex en það var á­kveðið að fara þessa leið þar sem hún sam­þættir allar hliðar Hatara og bindur tvo ó­líka heima saman í eitt.“

Sveitin er á leið í tón­leika­ferða­lag um Evrópu á næstu mánuðum og stendur fyrir út­gáfu­tón­leikum í Austur­bæ 22. og 23. febrúar næst­komandi, en seinni tón­leikarnir eru opnir öllum aldurs­hópum.

Hljómsveitin Hatari breytir um ímynd.
Fréttablaðið