Plóg­för ís­jaka sem fannst á sex hundruð metra dýpi segir sína sögu um stærð ís­aldar­jökulsins sam­kvæmt jarð­fræðingi stofnunarinnar. Rann­sóknar­skipið Árni Frið­riks­son kort­lagði nærri níu þúsund fer­kíló­metra svæði.

Vísinda­menn á vegum Haf­rann­sókna­stofnunar fundu plóg­för eftir ís­jaka á sex hundruð metra dýpi á hafs­botninum út af Látra­bjargi í ný­af­stöðnum leið­angri sínum við að kort­leggja hafs­botninn, en á­líka för fundust einnig á stórri sléttu í hyl­djúpunum við Græn­lands­sund.

„Það segir sína sögu um um­fang ís­aldar­jökulsins sem lá yfir landinu og stórum hluta af land­grunninu á síðustu ís­öld,“ segir Davíð Þór Óðins­son, jarð­fræðingur hjá stofnuninni og einn leið­angurs­manna, en þá hafi sjávar­staða verið allt að 150 metrum lægri en hún þekkist í dag.

Þeir héldu til á rann­sóknar­skipinu Árna Frið­riks­syni frá 3. til 26 ágúst og kort­lögðu alls um 8.964 fer­kíló­metra haf­svæði vestan við Látra­grunn, á Dohrn­banka og á Sel­vogs­banka. Leið­angurinn er hluti af á­taks­verk­efni Haf­rann­sókna­stofnunar um kort­lagningu hafs­botns í efna­hags­lög­sögu Ís­lands.

Og þrátt fyrir að tals­verð bræla úti fyrir landinu hafi háð rann­sóknum þeirra, sem gerðar eru með fjöl­geisla­mæli, urðu vísinda­mennirnir margs vísari um líf og lögun undir­djúpanna.

Sjávarfjöllin sem fundust út af Surtsey.
Mynd/Hafrannsóknarstofnun

Við erum ekki þjóð á meðal þjóða nema að sinna þessum rann­sóknum af kost­gæfni.

Fyrir utan plóg­förin á svo miklu dýpi sem fyrr er getið má heita að aur­keilur á Látra­grunni hafi vakið mikla at­hygli, en þær myndast við grugg­strauma (e. tur­bidity cur­rents) þar sem þyngri kornin falla fyrst úr upp­lausn og mynda lag­skipta einingu.

Þá vöktu lítil sjávar­fjöll vestan við Surts­ey líka at­hygli, um fimm­tíu til sex­tíu metrar á hæð sem virðast raða sér eftir tveimur sprungu­stefnum, annars vegar NA-SV og hins vegar NV-SA á Sel­vogs­banka.

Davíð Þór segir kort­lagningu hafs­botnsins afar mikil­væga fyrir Ís­lendinga, en hags­munirnir séu marg­vís­legir, ekki einasta hvað varðar bú­svæði botn­dýra og hrygningar­staði nytja­stofna, heldur líka til að gefa stoðir undir verndar­til­skipanir, finna heppi­leg svæði fyrir sjó­eldi, lagningu sæ­strengja, sjó­öryggi og haf­réttar­kröfur.

„Við erum ekki þjóð á meðal þjóða nema að sinna þessum rann­sóknum af kost­gæfni,“ segir Davíð Þór Óðins­son, ný­kominn í land og minnir á að lík­lega eigi enn eftir að kort­leggja um helming hafs­botnsins í lög­sögu Ís­lands.