Flugfélagið PLAY hefur í dag miðasölu á flugi til Boston og Washington D.C. í Bandaríkjunum.

Í tilkynningu frá fyrirtækinu kemur fram að fyrsta flug PLAY til Washington verði 20. apríl á næsta ári og 11. maí til Boston. Mun PLAY fljúga til Logan-flugvallar í Boston og Baltimore/Washington International flugvallar á milli Baltimore og Washington D.C. Í tilkynningunni er tekið fram að PLAY hafi fengið öll tilskilin leyfi til að hefja flug til Bandaríkjanna frá bandarískum flugmálayfirvöldum.

„Þessi áfangi er afar þýðingarmikill fyrir PLAY því nú tekur við næsti kafli í sögu félagsins með því að bæta við tengifarþegum yfir Atlantshafið og stækka markaðssvæði PLAY. Í vor verður hægt að fljúga með tengiflugi á milli áfangastaða í Bandaríkjunum, og Parísar, Berlínar, London, Kaupmannahafnar, Dublin, Brussel, Stafangurs, Þrándheims og Gautaborgar í Evrópu,” segir í tilkynningunni.

Haft er eftir Birgi Jónssyni, forstjóra PLAY, að síðustu mánuðir hafi verið krefjandi á miklum óvissutímum vegna kórónuveirufaraldursins. Þó sé magnað að hofa upp á árangur félagsins og kveðst hann þakklátur því góða starfsfólki sem starfar hjá PLAY.

„Við finnum fyrir miklum ferðahug, bæði hér á landi og erlendis, en kannanir sýna að tveir þriðju Bandaríkjamanna eru að skipuleggja næsta frí með erlenda áfangastaði efst í huga. Nú getum við loksins boðið flug til og frá Boston og Washington D.C. þannig að ferðalangar geta komist til Íslands og yfir Atlantshafið á viðráðanlegu verði og notið dvalarinnar á áfangastað án þess að þurfa eyða of miklu til að komast þangað,“ segir Birgir.