Vél flugfélagsins Play frá Berlín sem lenda átti síðdegis í Keflavík, þurfti að millilenda á Akureyri vegna veðurs. Vélin lenti á Akureyri um fimmleytið í dag.

„Aðstæður voru þannig í Keflavík að flugmenn og áhöfn ákváðu að fljúga vélinni frekar til Akureyrar, í öryggisskyni,“ segir Nadine Guðrún Yaghi, upplýsingafulltrúi flugfélagsins.

Berlínarvélinni og annarri vél flugfélagsins frá París var frestað um tvo tíma vegna veðursins. Parísarvélinni tókst að lenda í Keflavík um klukkan 16.40 en vélin frá Berlín tók á sig krók vegna veðurs eins og fyrr segir.

Vélin fór aftur í loftið frá Akureyri rétt fyrir klukkan sex með stefnuna á Keflavík. Farþegarnir ættu því að komast á áætlaðan áfangastað þrátt fyrir nokkurra klukkutíma seinkun vegna veðursins.

„Aðstæður voru þannig í Keflaík að flugmenn og áhöfn ákváðu að fljúga vélinni frekar til Akureyrar, í öryggisskyni.“

Íslendingar bíða á flugvöllum fram á nótt

Þá hefur tveimur síðdegisbrottförum véla Play frá Keflavík verið frestað. En fljúga átti til London og Kaupmannahafnar klukkan fjögur í dag. Áætlað er að þær fari í loftið um klukkan sjö í kvöld.

Þetta þýðir einnig að farþegar sem eiga bókaða heimferð með Play frá Kaupmannahöfn fara ekki í loftið fyrr en eftir miðnætti.

Farþegi sem Fréttablaðið ræddi við, var kominn á Kastrup þegar hann fékk tilkynningu frá Play um að fluginu hafi verið frestað til 01.20 í nótt og mun hann því bíða á flugvellinum ásamt öðrum Íslendingum á heimleið, fram á nótt.  Hann segir stemninguna ágæta í hópi Íslendinga sem mættir voru á völlinn.

Íslendingar á leið frá Kaupmannahöfn bíða rólegir og glaðlyndir á Kastrup, eftir vélinni sem enn er ekki lögð af stað frá Íslandi.
Aðsend mynd.

Ekki hefur náðst í upplýsingafulltrúa Icelandair, en nánast ekkert flug hefur verið um Keflavíkurvöll í dag. Þá hefur allt innanlandsflug einnig legið niðri.