Engir plastpokar verða afhentir án endurgjalds frá komandi áramótum. Að ári liðnu verður skattur lagður á alla burðarplastpoka og 1. janúar verður 2021, eftir rúm tvö ár, verða plastpokar bannaðir. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í aðgerðaáætlun í plastmálefnum sem samráðshópur skilaði auðlinda- og umhverfisráðherra nú klukkan tvö í dag.

Í starfshópnum, sem ráðherrann Guðmundur Ingi Guðbrandsson skipaði í júní, áttu sæti 13 manns. Þeir voru tilnefndir af ýmsum stofnunum samfélagsins en tillögurnar byggja á vinnu sex funda sem haldnir voru. Samkvæmt skipunarbréfi ráðherra hafði hópurinn það hlutverk að koma með  tillögur um aða draga úr notkun plasts hér á landi, svara því hvernig bæta mætti endurvinnslu þess og hvernig takast mætti á við plastmengun í hafi. Til hliðsjónar hafði hópurinn stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, stefnu umhverfis- og auðlindaráðherra um úrgangsforvarnir og áætlun umhverfisráðherra Norðurlandanna frá maí 2017 um að draga úr umhverfisáhrifum plasts.

Dregið úr plastmengun

Hópurinn gerir tillögu að átján aðgerðum til að ná þessum markmiðum. Í því skyni að draga úr notkun plasts leggur hópurinn til að plastpokar verði bannaðir 1. janúar 2021. Lagt er til að 1. janúar 2020 verði plasthnífapör, plastdiskar, plaströr og annað einnota plast bannað – samkvæmt tilskipun ESB. Hópurinn vill að tilskipun ESB verði flýtt og verði innleidd frá og með 1. janúar 2020, eða eftir rúmt ár.

Minna má á að samkvæmt könnun MMR vilja nærri tveir af hverjum þremur Íslendingum að plastpokar verði bannaðir.

Lagt er til að stutt verði við nýjar lausnir sem geti komið í stað plast og rannsóknir um endurvinnslu á plasti efldar. Settur verið á fót sérstakur rannsóknar- og þróunarsjóður í því skyni. Þá leggur hópurinn til að ráðast þurfi í herferð til að auka vitund fólks um ofnotkun á einnota plastvörum. „Breytingar á neyslu og hegðun almennings er lykilatriði við að ná árangri í ofnotkun á einnota plasti.“

Lagt er til að veittar verði viðurkenningar fyrir framúrskarandi plastlausar lausnir og að græn skref verði stigi í ríkisrekstri. Allar stofnanir verði skyldugar til að taka þátt í verkefninu Græn skref. Hópurinn gerir tillögu um að neytendur sem vilja mæta með eigin umbúðir undir keypta matvöru verði gert það kleift og að Matvælastofnun leggi þar línurnar. Loks er lagt til að helstu atvinnugreinar Íslands setji sér stefnu og móti aðgerðaáætlun fyrir 1. janúar 2020 um hvernig draga megi úr plastnotkun í landbúnaði, iðnaði, sjávarútvegi og ferðaþjónustu.

Næsti hluti tillagna hópsins lýtur að bættri endurvinnslu. Þar er fyrst nefnt að sveitarfélög og rekstraraðilar verði skyldaðir til að koma á samræmdri flokkun úrgangs. Flokkun úrgangs sé lykilaðgerð til að ná árangri í plastmálefnum. Ósamræmi í flokkun úrgangs á milli sveitarfélaga geri almenningi erfiðara fyrir við að flokka. Setja þurfi lög sem skyldi sveitarfélög og rekstraraðila til að flokka. Flokkunin verði samræmd á landsvísu. Lagt er til að frumvarp í þessa veru verði lagt fram á Alþingi innan árs. Þá gerir hópurinn það að tillögu sinni að úrvinnslugjald verði lagt á allt plast, til að auka skil á því til endurvinnslu.

Lagt er til að fyrirtækjum og rekstraraðilum verði auðvelda að velja grænni lausnir fyrir reksturinn með miðlægri upplýsingagjöf og ráðgjöf. Lagt er að bændum að velja allir sama lit á rúlluplasti, til að auðvelda endurvinnslu.

Hópurinn vill að stuðlað verði að minni plastnotkun og endurvinnslu plasts með skattaívilnun, til dæmis við kaup á tækjabúnaði sem notaður er til endurvinnslu plasts.

Síðustu fimm aðgerðirnar sem hópurinn leggur til snúa að plasti í hafi. Lagt er til að sett verði á fót heildstætt vöktunarkerfi plasts í hafi. Haf, strendur, hafbotn og lífverur verði vaktaðar með tilliti til plastmengunar.

Lagt er til að draga losun plasts í hafið með bættri hreinsun skólps. Sérstaklega verði horft til að hamla að örplast renni til sjávar. Þá leggur hópurinn til að nota settjarnir til að varna plastmengun. Við uppbyggingu nýrra hverfa skuli horfa til settjarna sem mengunarvörn. Samhliða verði lögð áherslu á hreinsun settjarna til að stöðva flæði öragna og örplasts í umhverfið.

Ein af tillögunum lýtur að því að banna hreinlætisvörur sem innihalda örplast. Slíkt plast sé að finna í sápum, sturtusápu, andlits- og líkamsskrúbbum og tannkremi, svo dæmi séu tekin. Slíkar afurðir endi í hafi. Lagt  er til að bannið taki gildi 1. janúar 2020.

Næst síðasta aðgerðin sem hópðurinn gerir að tillögu sinni snýr að hreinsun stranda við Ísland. Ráðast þurfi í vitundarvakningu um plastmengun í hafi. Það þurfi að vera samstarfsverkefni ríkis, sveitarfélaga og félagasamtaka. Þjóðarátak þurfi í strandhreinsun. Um sé að ræða mikilvægan lið til að Ísland geti staðið undir ímynd um að landið sé hreint. „Ísland stefnir að hreinustu landhelgi í heimi.“ Lagt er til að sjóður verði settur upp til að standa straum af hreinsun og fræðslu um plastmengun.

Að endingu er lagt til að öll staðbundin veiðarfæri verði merkt á skýran hátt svo auðvelda megi rekjanleika. Minnt er á að skylt er að tilkynna um töpuð veiðarfæri en að því hafi illa verið sinnt. Mikilvægt sé að kostnaður lendi ekki á þeim sem tilkynnir um tap á veiðarfærum heldur aðeins á þeim sem skilja veiðarfæri eftir af ásetningi og engin tilkynning er til um.

Hópinn skipuðu:

Laufey Helga Guðmundsdóttir (formaður)
Guðlaugur G. Sverrisson
Lúðvík E. Gústafsson
Lárus M. K. Ólafsson
Elva Rakel Jónsdóttir
Hrönn Jörundsdóttir
Þórey S. Þórisdóttir
Páll Árnason
Benedikt S. Benediktsson
Rannveig Magnúsdóttir
Eydís Salome Eiríksdóttir
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir
Guðmundur Andri Thorsson