Alþingi samþykkti í dag frumvarp Guðmundar Inga Guðbrandssonar, um bann á einnota plastpokum. Lögin munu taka gildi 1. júlí á þessu ári og fer gjaldtakan af stað 1. september. Frá og með þeim degi verður óheimilt að afhenda burðarpoka úr plasti án endurgjalds og verður gjaldið sýnilegt á kassakvittunum.

Frá og með 1. janúar árið 2021 verður ó­heimilt að af­henda burðar­poka úr plasti með eða án endurgjalds. Bannið nær til plast­pokanna í græn­met­is­deildum verslana. Versl­anir geta þó haft til sölu burð­ar­poka úr plasti í hillum inni í sölu­rými versl­ana, svo sem nestis­poka og rusla­poka. Bannið á ekki við um burðar­poka úr öðrum efnum.

Hægt er að finna allar helstu upplýsingar um burðarplastpokabannið á heimasíðu Stjórnarráðsins.

Verslunarfólk fagnar banni plastpoka

Framkvæmdastjórar Krónunnar og Samkaupa segja bannið við að afhenda burðarpoka úr plasti án endurgjalds vera í takt við þeirra áherslur og eitthvað sem kallað hafi verið eftir.

„Við erum mjög jákvæð gagnvart þessum breytingum og þetta er í takt við okkar áherslur,“ segir Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar í samtali við Fréttablaðið í febrúar á þessu ári.

Þurfi að gera betur

Frumvarpið var samþykkt með 43 atkvæðum og voru sjö sem greiddu ekki atkvæði. Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Vinstri grænna, gerði grein fyrir atkvæði sínu.

„Framtíðin okkar, aðgerðir strax, er hrópað hér á Austurvelli. Þá má vera okkur umhugsunarefni að það taki okkur 8 ár að klára jafn einfalda aðgerð og að banna einnota plastpoka. Við þurfum að gera betur.“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokks, gagnrýndi frumvarpið og sagði nálgunina sýndarmennsku en ekki heildstæða lausn á umhverfisvandanum.

Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður Vinstri grænna, svaraði Sigmundi og benti honum á að þetta tiltekna frumvarp væri hluti af 18 skrefa aðgerðaáætlun og væri því hluti af heildrænni nálgun.

Gengur lengra en tilskipun Evrópuþings

Evrópuþingið samþykkti í fyrra tillögu um að banna einnota plast innan sambandsins. Frum­varpið sem samþykkt var í dag gengur lengra en lág­marks­kröf­ur til­skip­un­ar­ Evrópusambandsins gera ráð fyr­ir. Í tilskipuninni er ríkjum heimilt að undanskilja þynnstu pokana en eru hvött til þess að gera það ekki. Með þessum lögum verður Ísland við þeirri hvatningu.

Fréttin hefur verið uppfærð.