Al­gengar plastagnir geta haft á­hrif á efna­skipti líkamans með þeim hætti að auka á fitu­söfnun. Plastagnirnar finnast víða í okkar nær­um­hverfi, meðal annars í matar­um­búðum, plast­dúkum, vatns­flöskum og sjampó­flöskum. Þær finna sér leið inn í líkama okkar í gegnum matinn okkar en líka í rykinu sem við öndum að okkur og jafn­vel í gegnum húðina.

Þetta kemur fram í nýrri rann­sókn sem rann­sak­endur frá norska vísinda- og tækni­há­skólanum birtu í vísinda­ritinu Environ­mental Science and Technology í gær.

Plast­um­búðir inni­halda þúsundir efna sem er mis­góð fyrir líkama okkar. Sum efnanna geta haft bein á­hrif á efna­skipti líkamans með skað­legum hætti. Rann­sak­endur segja plast­mengun eiga stærri þátt í hækkandi þyngd mann­kyns en áður hefur verið talið.

Mikið hefur verið talað um hækkandi meðal­þyngd vest­rænna þjóða en rann­sak­endur töldu ekki vera hægt að skýra það einungis út frá auknu kal­oríu­inn­taki eða kyrr­setu. Plast­mengun skýrir betur hvers vegna meðal­þyngd hefur hækkað eins mikið og raun ber vitni undan­farin ár.

Neytendur vita ekki hvaða vörur innihalda skaðleg efni

Martin Wagner, einn af rann­sak­endunum og dósent við há­skólann, segir í við­tali við norsku frétta­stofuna NRK að það sé frekar ó­hugnan­legt hve margar mis­munandi efna­tegundir fundust í þeim vörum sem voru skoðaðar.

Í 34 mis­munandi vörum fundu rann­sak­endur ríf­lega 55 þúsund mis­munandi efni en gátu að­eins borið kennsl á 629 þeirra.

Wagner segir að sumar af þessum vörum hafi á­hrif á efna­skipti líkamans og að neyt­endur hafi enga leið til að vita hvort þau efni séu í vörunum sem þeir kaupa. Um það bil einn þriðji af þeim vörum sem rann­sak­endur skoðuðu inni­héldu efni sem höfðu bein á­hrif á fitu­söfnun.

Áður hefur verið sýnt fram á að ákveðnar plastagnir geti haft á­hrif á frjó­semi ein­stak­linga og þroskun barna, meðal annars.