Hæstiréttur hefur samþykkt áfrýjunarbeiðni tveggja eigenda Plastgerðar Suðurnesja, sem voru dæmdir af Landsrétti fyrir hlutdeild í manndrápi af gáleysi þegar starfsmaður fyrirtækisins lést af sárum sínum eftir að hafa klemmst á búk í frauðpressuvél.
Mennirnir tveir, Björn Herbert Guðbjörnsson, eigandi og framkvæmdarstjóri fyrirtækisins og Skúli Magnússon, eigandi og verkstjóri fyrirtækisins voru í maí í fyrra sakfelldir af Landsrétti fyrir hlutdeild af manndrápi af gáleysi, ásamt Sigurgeiri Svani Jóhannssyni, verkstjóra.
Samþykktu að aftengja öryggisbúnað
Forsaga málsins er sú að Björn Herbert, sem eigandi, framkvæmdarstjóri og atvinnurekandi samþykkti að undirmaður hans, Sigurgeir, gerði öryggisbúnað frauðpressuvélar óvirkan, vitandi að starfsmenn fyrirtækisins færu reglulega inn í vélina til þess að hreinsa hana og fyrir að hafa veitt Sigurgeiri þau fyrirmæli að um að gangsetja allar vélar í vinnusal fyrirtækisins án þess að upplýsa aðra starfsmenn um að öryggisbúnaðurinn hefði verið aftengdur.
Sakargiftir á hendur Skúla, sem verkstjóri, starfsmaður, eigandi og daglegur stjórnandi samþykkti að Sigurgeir gerði öryggisbúnað frauðpressuvélar óvirkan, án þess að starfsmenn vissu af því.
Það var svo sumarið 2017 þegar lögregla var kölluð til vettvangs vegna vinnuslyss í Plastgerð Suðurnesja, en þá hafði starfsmaður klemmst á búk í svo kallaðri frauðkassasteypuvél. Maðurinn var fluttur af vettvangi í sjúkrabíl en lést af sárum sínum.
Niðurstaða málsins fyrir Landsrétt var sú að Sigurgeir Svanur var sakfelldur fyrir manndráp af gáleysi, en þeir Björn Herbert og Skúli fyrir hlutdeild í manndrápi af gáleysi. Sigurgeir hlaut 60 daga skilorðsbundið fangelsi, en Björn og Skúli 30 daga fangelsi hvor. Mennirnir þurftu einnig að greiða eina og hálfa milljón í málskostnað.
Þann 14. júlí síðastliðinn sóttu tvímenningarnir um leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar. Ákæruvaldið, sem var sækjandi í málinu fyrir Landsrétti, var á móti beiðninni.

Hæstiréttur féllst á áfrýjunarbeiðnina
Björn Herbert byggir áfrýjunarbeiðni sína á að takmörkuð dómaframkvæmd sé fyrir hendi um refsivert gáleysi framkvæmdastjóra fyrirtækja. Þá sé dómur Landsréttar í andstöðu við fyrri dómafordæmi Hæstaréttar sem lúti að slíku gáleysi sem og fordæmum þar sem viðurkennt hafi verið að í fyrirtækjum skipti starfsmenn og stjórnendur með sér verkum og hver beri ábyrgð á sínu starfssviði, en ekki öðru. Jafnframt telur Björn að málið hafi verulega þýðingu þegar komi að skýringum á réttarreglum um hlutdeild. Loks telur hann að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, þannig fái skýring Landsréttar á gáleysi og stórfelldu gáleysi ekki staðist. Jafnframt sé skilyrðum hlutdeildar ekki rétt beitt enda hafi leyfisbeiðandi ekki liðsinnt undirmanni sínum á nokkurn hátt sem hafi leitt til gáleysisbrots hans.
Skúli byggir sína beiðni einnig á því að áfrýjun lúti atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu. Ekki hafi áður verið kveðnir upp dómar á Íslandi þar sem reynt er á refsiábyrgð starfsmanna sem eru í lögbundnu orlofi frá störfum og málið því fordæmisgefandi. Skúli vísar til þess að ekki verði lagðir huglægir mælikvarðar á það hversu mikil hætta stafi af tiltekinni háttsemi þegar metið er hvort skyldur samkvæmt vinnuverndarlöggjöfinni hvíli á starfsmönnum í orlofi, líkt og er gert í dómi Landsréttar, heldur skuli matið vera huglægt og ráðast af ákvæðum laga. Þá telur Skúli að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur og að hann fari í bága við meginreglur félagaréttar og ákvæði laga um einkahlutafélög, þess efnis að hluthafi veðri ekki með nokkrum hætti gerður refsiábyrgur fyrir starfsemi hlutafélags.
Hæstiréttur telur að úrlausn þeirra atriða sem Björn og Skúli byggja beiðni sína á kunni að hafa verulega almenna þýðingu og féllst því á áfrýjunarbeiðnina.