Í raun er Ioniq-línan hugsuð sem undirtegund frá Hyundai og 2022-árgerðin 5 er fyrsti bíllinn í línunni.

Hyundai hefur áður sent frá sér rafbíla en þeir hafa verið byggðir á jarðefnaeldsneytis- eða tvinnbílum. Ioniq 5 er hannaður sem rafbíll frá grunni og nýtir það frelsi sem hlýst af því að vera ekki settur inn í fyrir fram gerðan ramma.

Ioniq 5 er skemmtileg blanda af retro og nútímalegri hönnun. Línurnar eru skarpar og framsæknar um leið og retro tilfinning fylgir fram- og afturljósum.

Að innan ræður einfeldnin ríkjum. Stór skjár nær yfir mest allt mælaborðið og dyraspjöldin sveigjast út til að skapa olnbogarými. Þá skapar flatt gólfið góða tilfinningu fyrir nægu plássi. Svo er hægt að halla bílstjórasætinu á þægilegan hátt. Tilvalið er að halla sætinu og fá sér smá kríu á meðan verið er að hlaða bilinn. Ekki skemmir fyrir að hægt er að hvíla fæturna á fótskemlum, rétt eins og í fínustu lúxusbílum sem hlægt er að kaupa fyrir peninga.

Hluti af retro tilfinningunni við Ioniq 5 er að hönnun hans er að hluta innblásin af 1975-árgerðinni af Hyundai Pony, sem var fyrsti bíllinn sem Hyundai hannaði frá grunni.

Ioniq 5 er í boði hér á landi fjórhjóladrifinn með yfir 450 kílómetra drægi.

Þrátt fyrir að Ioniq 5 líti út fyrir að vera mjög hefðbundinn að stærð sest fólk inn í miklu stærri og rúmbetri bíl en það á von á. Einhver lýsti því svo að Ioniq 5 væri eins og taskan hennar Mary Poppins, sem virðist hafa ótakmarkað rými.

Þá kemur á óvart hve lipur og léttur svo stór og öflugur bíll er í akstri. Aflið er eitt af því sem gerir þennan bíl spennandi og þægilegan. Hann þarf aldrei að hafa fyrir hlutunum, allt er auðvelt og mjúkt í akstri, hvort sem um er að ræða akstur upp brekkur, á malarvegum eða framúrakstur.

Ioniq 5 er með glerþaki og fyrir vikið streymir mikil og góð birta inn í bílinn, án þess að það sé truflandi eða blindandi. Birtan kemur ofan frá og skapar þá tilfinningu að bjart og opið sé fyrir ofan bílstjóra og farþega. Stuðlar þetta líka að því að fólki finnst plássið og rýmið svo mikið.

Sem fyrr segir er einfaldleikinn í fyrirrúmi í innanrými Ioniq 5, en það er ekki á kostnað þæginda. Þegar sest er inn í bílinn er það líkast því að setjast í hægindastól, sumir segja lazy-boy vegna þess að hægt er að setja fram fótskemil undir fæturna.

Þessu til viðbótar er Ioniq 5 margverðlaunaður bíll. Hlaut hann þrenn verðlaun í valinu á heimsbíl ársins 2022 sem best hannaði bíllinn, besti rafmagnsbíllinn, auk þess sem hann var valinn besti bíll heims 2022 á World Car Awards.

Hyundai Ioniq 5 tekur sig vel út í íslenskri náttúru.
Einfaldleiki og notagildi er í fyrirrúmi í innanrými.
Stórt glerþak færir ökumanni og farþegum mikla og góða birtu sem eykur á tilfinningu fyrir miklu rými.