„Þingvallavatn er eitt mesta náttúruundur sem við eigum á Íslandi og peningagræðgi er að eyðileggja þetta alveg big time,“ segir Pjetur Maack silungsveiðimaður.

„Á veiðislóð hjá mér hefur bleikjan bara ekki sést í tvö sumur. Þetta er bara hræðilegt,“ segir Pjetur sem á gamlan ættarbústað í landi Miðfells við austanvert Þingvallavatn og hefur stundað þar silungsveiði á stöng óslitið í hartnær fjóra áratugi.

Pjetur segir skýringuna á veikri stöðu bleikjunnar felast í hinu fornkveðna; að peningarnir ráði, „money is king“, eins og hann orðar það.

„Við Þingvallavatn núna eru tvö ef ekki þrjú félög sem eru að selja veiðileyfi í urriða. Það er skylda að sleppa öllum urriða og urriðahrygna sem hrygnir annað hvert ár étur þyngd sína á þremur til fjórum dögum það ár sem hún hrygnir,“ bendir Pjetur á.

„Við það að sleppa öllum urriða þarf hann að éta og hann étur allt. Bændur nenna ekki að setja niður net lengur fyrir bleikju því urriðinn ræðst á hana í netinu og rífur allt og tætir því hann er svo svangur,“ útskýrir Pjetur og segir einnig að þar sem urriðinn sé svo svangur taki hann agn veiðimanna í stórum stíl og út spyrjist að veiðivonin sé svo góð. „Þannig að þetta bítur í rassinn á sjálfu sér.“