Fastir pistlahöfundar og gagnrýnendur, bæði í útvarpi og sjónvarpi Ríkisútvarpsins (RÚV), fá greitt fyrir störf sín sem verktakar.

Samkvæmt upplýsingum frá RÚV fá álitsgjafar eða viðmælendur í þáttum í útvarpi og sjónvarpi ekki greitt fyrir slík viðtöl og skiptir þá ekki máli hversu oft hlutaðeigandi er fenginn til viðtals.

Dæmi eru um að starfsmenn á launaskrá hjá RÚV fái greitt fyrir að sinna störfum þvert á miðla. Ef greitt er fyrir slíkt er það hluti af launagreiðslu viðkomandi.

Starfsmenn RÚV sinna ekki störfum sem verktakar á sama tíma og þeir eru launþegar. Þetta segir í svari Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, við fyrirspurn á Alþingi frá Ásmundi Friðrikssyni um kostnað við þáttagerð og verktöku hjá RÚV.

Engir þættir RÚV voru unnir af starfsmönnum stofnunarinnar sem verktökum á síðustu fimm árum. Samkvæmt upplýsingum frá RÚV kaupir stofnunin þjónustu af mörgum verktökum ár hvert en safnar ekki upplýsingum um hvort og þá fyrir hverja aðrir verktakar starfa í föstu starfi eða í verktöku.