Indriði Ingi Stefánsson, varaþingmaður Pírata, leggur fram breytingartillögu við tillögu meirihluta kjörbréfanefndar þess efnis að miðað verði við fyrri tölur úr talningu í Norðvesturkjördæmi en ekki þær seinni. Verði sú tillaga samþykkt, verður kjörbréf hans sjálfs einnig ógilt, enda byggt á niðurstöðum eftir seinni talningu í kjördæminu.
„Ég er að leggja til að í stað þess að miða við seinni tölurnar, sé réttara að miða við fyrri tölurnar, vegna þess að allir annmarkar á fyrri tölunum eiga líka við seinni tölurnar fyrir utan það að seinni talningin tafðist eftir að kjörfundi lauk, sem er formsatriði. En líka vegna þess að það er búið að rita í gerðabókina, sem eru afstemmdar tölur, þannig lýkur talningunni samkvæmt lögum,“ segir Indriði.
Þess vegna sé réttara að þær tölur gildi og í kjölfarið yrðu kjörbréf þeirra fimm jöfnunarþingmanna og varamanna þeirra, þar með talið hans eigið, sem komust inn á grundvelli breytinga ekki samþykkt.
Samkvæmt tillögunni væri það næsta hlutverk landskjörstjórnar að gefa út kjörbréf á grundvelli fyrri talningar.
Indriði er hins vegar ekki reiðubúinn að svara því hvort hann muni styðja tillögu meirihlutans verði hans eigin breytingartillaga við hana samþykkt. „Ég var bara ekki búinn að hugsa út í það, það á bara eftir að koma í ljós.“
Indriði er annar varamaður og átti ekki sjálfur von á því að taka sæti á þingi og flytur sína jómfrúrræðu á þingi seinna í dag.