Ind­riði Ingi Stefáns­son, vara­þing­maður Pírata, leggur fram breytingar­til­lögu við til­lögu meiri­hluta kjör­bréfa­nefndar þess efnis að miðað verði við fyrri tölur úr talningu í Norð­vestur­kjör­dæmi en ekki þær seinni. Verði sú til­laga sam­þykkt, verður kjör­bréf hans sjálfs einnig ó­gilt, enda byggt á niður­stöðum eftir seinni talningu í kjör­dæminu.

„Ég er að leggja til að í stað þess að miða við seinni tölurnar, sé réttara að miða við fyrri tölurnar, vegna þess að allir ann­markar á fyrri tölunum eiga líka við seinni tölurnar fyrir utan það að seinni talningin tafðist eftir að kjör­fundi lauk, sem er forms­at­riði. En líka vegna þess að það er búið að rita í gerða­bókina, sem eru af­stemmdar tölur, þannig lýkur talningunni sam­kvæmt lögum,“ segir Ind­riði.

Þess vegna sé réttara að þær tölur gildi og í kjöl­farið yrðu kjör­bréf þeirra fimm jöfnunar­þing­manna og vara­manna þeirra, þar með talið hans eigið, sem komust inn á grund­velli breytinga ekki sam­þykkt.

Sam­kvæmt til­lögunni væri það næsta hlut­verk lands­kjör­stjórnar að gefa út kjör­bréf á grund­velli fyrri talningar.

Ind­riði er hins vegar ekki reiðu­búinn að svara því hvort hann muni styðja til­lögu meiri­hlutans verði hans eigin breytingar­til­laga við hana sam­þykkt. „Ég var bara ekki búinn að hugsa út í það, það á bara eftir að koma í ljós.“

Ind­riði er annar vara­maður og átti ekki sjálfur von á því að taka sæti á þingi og flytur sína jóm­frúr­ræðu á þingi seinna í dag.