Fé­lags­menn Pírata felldu til­lögu sem lögð var fram á heima­síðu um að taka upp sér­stakt em­bætti formanns í flokknum. At­kvæðagreiðsla fór fram á vef­síðu Pírata og var til­lagan felld en hún hlaut stuðning 56,94 prósent flokks­manna. Aukinn meiri­hluta þarf til að gera laga­breytingar innan Pírata og hlaut til­lagan því ekki brautar­gengi.

Píratar hafa frá upp­hafi stuðst við flatan valda­s­trúktúr og leiðir enginn for­maður flokkinn eins og tíðkast í öðrum flokkum. Átök innan flokksins hafa gjarnan vakið at­hygli út fyrir hann.

Í sam­tali við Frétta­blaðið segir Helgi Hrafn Gunnars­son, þing­maður Pírata, að stuðningur við til­löguna geri sig bjart­sýnan um fram­haldið, þrátt fyrir að hún hafi ekki verið sam­þykkt.

„Mér finnst já­kvætt fyrir fé­lagið og um­ræðuna að hún náði þó yfir 50 prósent, sem þýðir að svona mál þurfa þá kannski ekki að vera jafn við­kvæm og þau hafa svo­lítið þótt,“ segir Helgi. Hann segir að málið hafi verið við­kvæmt innan Pírata hingað til.

„Það hefur verið við­kvæmt að ræða þetta og þetta er svona hlutur sem er mikil­vægur fyrir sjálfs­mynd flokksins, þetta for­manns­leysi. Þannig ég sé fyrir mér að sam­talið um vanda­málið sem við erum að reyna að leysa haldi bara á­fram en verði auð­veldara í kjöl­farð. Þannig að þótt þetta hafi fallið er ég samt á­nægður með það að þetta sýnir að það er alveg svig­rúm fyrir sam­talið, þó fólk sé kannski ekki sam­mála um lausnirnar.“

Spurður um það hvort niður­staðan sé honum von­brigði segir Helgi svo ekki vera. „Ég og aðrir Píratar við bara leggjum fram okkar hugðar­efni og það er bara þannig í lýð­ræðinu að það eru stundum ekki nógu margir sam­mála manni. Þegar maður að­hyllist lýð­ræði lifir maður við það og býst við því, að sigra ekki alla sigra.“

Hann bendir á að önnur til­laga um breytingar á stjórnum, ráðum og nefndum hafi hlotið brautar­gengi, sem sé já­kvætt. „Hún er mjög mikil­væg og snýst um hnit­miðaðri innri stofnanir. Hún er eigin­lega mikil­vægust að mínu mati og ég fagna henni.

Ég geri ráð fyrir því að sú til­laga muni valda mjög miklum og já­kvæðum breytingum á innra starfi flokksins.“