Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður og talsmaður Pírata, segir að flokkurinn sé tilbúinn að styðja minnihlutastjórn Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks.

Þetta kom fram í máli Þórhildar Sunnu í Silfrinu á RÚV í morgun.

Viðræður um myndun nýrrar ríkisstjórnar hafa staðið yfir undanfarna daga og hafa þær að mestu verið óformlegar. Búist er við því að Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Vinstri grænir ákveði að hefja formlegar viðræður fljótlega þar sem rætt yrði um skiptingu ráðuneyta og stjórnarsáttmála.

Þórhildur Sunna sagði að aðrir kostir um myndun nýrrar ríkisstjórnar væru þó einnig í boði.

„Við höfum séð fyrir okkur að við gætum stutt minnihlutastjórn Samfylkingar, VG og Framsóknar. Við værum til í það,“ sagði Þórhildur við Egil Helgason í Silfrinu. Hún sagði að það væri einnig í boði að Píratar ættu aðild að slíkri ríkisstjórn en það virðist þó ekki vera flokknum kappsmál að komast í ríkisstjórn.

„Það er kannski tími til kominn að líta til fjölbreyttari stjórnarforma og stjórnarhátta en við höfum gert við áður til að takast á við nýja tíma í pólitík.“

Samfylkingin, VG og Framsókn fengu samtals 27 þingmenn í nýafstöðum kosningum en með stuðningi Pírata yrðu 33 þingmenn á bak við ríkisstjórnina, eða þriggja manna meirihluti.