Orðrómur gengur innan veggja þinghússins um að Píratar séu farnir að beita málþófi eða hyggist fara í hægagang og nýta allan hugsanlegan ræðutíma í umræðu um fjárlögin til að tefja útlendingafrumvarp Jóns Gunnarssonar.

„Nei, er heiðarlega svarið við þeirri spurningu,“ segir Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata.

Hann segir þó að fyrst Jón Gunnarsson vilji ekki svara spurningum um frumvarpið í nefnd þurfi hann að svara í ræðustól.

„Okkur hefur verið bent á að frumvarpið sé ekki í samræmi við stjórnarskrá, en samt ætla þau að setja þetta á dagskrá,“ segir Björn Leví.

Óvíst er hvenær frumvarpið kemur til umræðu. Líklegt er að það verði í þessari viku eða næstu.