Þing­flokkar Pírata og Sam­fylkingarinnar lögðu í dag báðir fram þings­á­lyktunar­til­lögu um svo­kallaðan grænan sátt­mála en at­hygli vekur að flokkarnir gera það í sitt­hvoru lagi en ekki saman líkt og sjá má á vef Al­þingis.

Til­lögurnar eru nokkuð svipaðar en í til­kynningu frá þing­flokki Sam­fylkingarinnar kemur fram að megin­þráður stefnu­mótunar sam­kvæmt til­lögu flokksins verði sjálf­bærni og að Ís­land verði grænt land með grænt hag­kerfi. Í þings­á­lyktunar­til­lögu Pírata segir að til­lögurnar eigi að verða leiðar­vísir fyrir ríkis­stjórn Ís­lands til að ná fullu jafn­vægi kol­efnis­út­blásturs á öllum sviðum þjóð­fé­lagsins.

Hrein til­viljun, flokkarnir muni vinna saman að málinu

Í sam­tali við Frétta­blaðið segir Logi Már Einars­son, for­maður Sam­fylkingarinnar, að um hreina til­viljun sé að ræða og að flokkarnir muni vinna saman að málinu.

„Þetta var mjög sér­stakt og skemmti­legt bara í rauninni. Það er nú þannig að þessir flokkar vinna vel saman en svona núna í lok þings þegar allir eru að hugsa sitt og mikið að gera að þá hittir það svo á fyrir al­gjöra til­viljun að við erum að vinna þessa mál og í raun bara með tólf sentí­metra vegg á milli okkar,“ segir Logi.

„Svo detta þau inn á ná­kvæm­lega sama tíma og ég á eftir að skoða þeirra mál en mér sýnist það vera keim­líkt og þetta er auð­vitað gríðar­lega mikil­vægt mál og við munum auð­vitað bara sam­eina krafta okkar og það er bara gott að það séu tveir flokkar sem vilja leggja á­herslu á þetta,“ segir Logi. „Í sjálfu sér er ekkert skrítið að í svona máli detti fleirum en einum í hug að gera það sama og það er auð­vitað bara mikil­vægt að allir flokkar komi að þessu.“

Engin sam­keppni og öðruvísi útfærslur

Þing­maður Pírata, Smári Mc­Cart­hy, tekur í sama streng og Logi þegar hann er inntur eftir við­brögðum og segir það ekki skrítið að málin séu lögð fram á sama degi en þing­flokkur Pírata hafi byrjað að vinna að málinu í febrúar.

„Ég var ein­mitt að tala við Loga um þetta, þetta er auð­vitað að hluta bara til­viljun. Við fórum af stað í að vinna þetta fyrir einum og hálfum mánuði og þetta lá allt saman fyrir, fyrir páska en hefur svo verið í yfir­lestri hjá skjala­deildinni síðan þá og vð fengum þetta til okkar í morgun yfir­lesið og ekkert annað að gera en að setja þetta út.

Logi og þau fengu víst bara sína til­lögu í gær og sendu þetta inn í gær. Það eru auð­vitað bara margir að hugsa um þessi um­hverfis­mál á þessum tíma,“ segir Smári sem segir spurður að flokkarnir hafi ekki verið í sam­keppni í þessum málum.

„Okkur grunaði auð­vitað að fleiri væru að hugsa um þetta en við vorum ekkert í neinni­sam­keppni og hefðum örugg­lega átt að spjalla við þau fyrir­fram en núna getum við reynt að ýta þessum hug­myndum í gegn í sam­einingu,“ segir Smári.

„Þegar þú skoðar til­löguna þeirra og okkar, þó þetta sé svipað er þetta auð­vitað að­eins öðru­vísi út­færslur sem gerir þetta svo bara enn­þá á­huga­verðara.“