Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata og fyrsti flutningsmaður frumvarpsins um afglæpavæðingu fíkniefna, hefur lagt til breytingartillögu um að lögin, verði þau samþykkt, taki gildi 1. janúar 2021.

Við meðferðs málsins komu fram athugasemdir um að nauðsynlegt væri að gefa nægan tíma til að undirbúa setningu reglugerðar um það magn efna sem talist gæti til eigin nota. Tillaga Pírata, um að fresta gildistöku um nokkra mánuði, á að koma í veg fyrir réttaróvissu sem skapast myndi við gildistöku laganna.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarsflokks, hefur lagt fram frávísunartillögu og telur mikilvægt að vinna áfram með frumvarpið í stað þess að greiða atkvæði um það í kvöld. Vill hún vísa því til ríkisstjórnarinnar. Samkomulag mun þó vera um að gengið verði til atkvæða um frumvarpið efnislega og því ekki vísað frá.

Afstaða þingheims til þessa frumvarps liggur ekki fyrir og eru engin bein tilmæli gefin út til þingmanna stjórnarmeirihlutans. Sjaldan ríkir sérstök spenna um afgreiðslu þingmála enda standa þau yfirleitt eða falla eftir línum stjórnarmeirihluta og stjórnarandstöðu.