Þing­menn Pírata ætla að kalla eftir því að farið verði í rann­sókn á öllum að­gerðum stjórn­valda í tengslum við CO­VID-19 heims­far­aldurinn en Smári Mc­Cart­hy, þing­maður Pírata, greindi frá þessu í kvöld­fréttum Stöðvar 2 í dag. Stjórnvöld hafa frá upphafi faraldursins gripið til ýmsra aðgerða til að hefta útbreiðslu kórónaveirunnar.

„Það snýst bara um það að at­huga hvort hlutirnir hafi verið rétt gerðir, með til­liti til mann­réttinda og annarra þátta,“ sagði Smári en að­spurður segir hann engar efa­semdir vera af hans hálfu um að að­gerðirnar hafi verið fram­kvæmdar á réttan hátt.

Hann segir til­ganginn vera til að hægt sé að læra af því sem hefur átt sér stað. „Mér finnst allt hafa gengið mjög vel en vandinn er að það eru þúsundir manna um allt Ís­land sem hafa orðið fyrir á­hrifum af þessu og við vitum ekki, fyrr en við förum að kanna þetta,“ sagði Smári enn fremur.

Kalla eftir rannsókn þar sem ríkisstjórnin hefur ekki gert það

Að því er kemur fram í frétt Vísis um málið bendir Smári á að Alma, Víðir og Þór­ólfur, þrí­eykið svo­kallaða, hafi sjálf kallað eftir því að gerð verði út­tekt á að­gerðum sem yfir­völd hafa gripið til. Smári sagði að þing­mennirnir væru að kalla eftir rann­sókn þar sem ekkert hafi heyrst frá ríkis­stjórninni um málið.

„Ég geri ráð fyrir því að niður­staðan verði ein­hvern veginn á þá leið að allt hafi verið rosa­lega vel gert, en svo gæti hún líka skilað af sér at­riðum um eitt­hvað sem mætti bæta í fram­tíðinni,“ sagði Smári en hann segir rann­sókn geta skilað betri verk­ferlum og betri inn­sýn inn í það hversu langt má ganga á mann­réttindi fólks.

Takmarkanir í sífelldri endurskoðun

Síðastliðna mánuði hafa ýmsar breytingar verið gerðar á samkomutakmörkunum til að hefta útbreiðslu kórónaveirunnar en sífellt er verið að endurskoða reglurnar. Eins og staðan er í dag er miðast samkomutakmarkanir við það að 200 manns megi koma saman og miðast nálæðarregla við einn metra.

Líkt og greint var frá fyrr í dag eru nú 455 manns í einangrun með virkt smit og fjórir á spítala vegna COVID-19, þar af einn á gjörgæslu. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í samtali við Fréttablaðið í morgun að ákvörðun um næstu skref yrðu tekin eftir daginn.

„Það liggur ekki fyrir núna, þetta er á teikniborðinu og ég er tilbúinn með mínar tillögur ef á þarf að halda,“ sagði Þórólfur aðspurður um hvort til greina komi að herða aðgerðir hér á landi.