Þingflokkur Pírata hefur lokið umræðu um útlendingafrumvarp Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra. Flokkurinn telur að meirihluti þingsins sé í stríði gegn mannréttindum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Pírötum.
Umræða um útlendingafrumvarp dómsmálaráðherra hefur staðið yfir síðan Alþingi kom saman eftir jólafrí. Önnur umræða frumvarpsins hófst með hefðbundnum hætti og tóku þingmenn úr flestum flokkum þátt. Þingmenn Pírata héldu umræðunni áfram svo dögum skiptir en þingflokkurinn krafðist þess að frumvarpið fari aftur til allsherjar- og menntamálanefndar fremur en í þriðju umræðu. Allsherjar- og menntamálanefnda tók 13 fundi um frumvarpið eftir fyrstu umræðu og sendi út 116 umsagnarbeiðnir til margvíslegra aðila og fékk 27 skrifleg svör til baka.
Í tilkynningu frá Pírötum segir að það sé fullreynt að opna augu stjórnarliða og hvetja þau til að standa vörð um stjórnarskránna.
„Þrátt fyrir að frumvarpið hafi hlotið alvarlega gagnrýni frá umsagnaraðilum hefur stjórnarmeirihlutinn á þingi ákveðið að hafa málið áfram í forgangi á kostnað annarra mála, í stað þess að hlusta á gagnrýnina og gera umbætur á frumvarpinu, eða draga það til baka, en dagskrárvaldið er í höndum meirihlutans,“ segir í tilkynningunni, en Píratar telja sig hafa sagt sitt um málið að sinni.
Þá segja Píratar að meirihlutinn óttist óháða úttekt á frumvarpinu, en flokkurinn hefur kallað eftir því að hlustað sé á aðfinnslur umsagnaraðila. Í stað þess að mæta gagnrýni með málefnalegum hætti hafi meirihlutinn aðeins talað um meint málþóf og haldið því fram að Píratar séu með þingið í gíslingu.
„Við teljum okkur hafa reynt til þrautar að kalla fram lýðræðislegt samtal, en meirihlutinn hefur ekki verið til í það. Ef þau telja málið nógu vel unnið ætti enginn að þurfa að óttast óháða úttekt á jafn sjálfsögðum hlut og því hvort frumvarpið samræmist ákvæðum stjórnarskrárinnar, en framkoma meirihlutans bendir þvert á móti til þess að þau viti upp á sig sökina,” segir Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata.