Þing­flokkur Pírata hefur lokið um­ræðu um út­lendinga­frum­varp Jóns Gunnars­sonar dóms­mála­ráð­herra. Flokkurinn telur að meiri­hluti þingsins sé í stríði gegn mann­réttindum. Þetta kemur fram í til­kynningu frá Pírötum.

Um­ræða um út­lendinga­frum­varp dóms­mála­ráð­herra hefur staðið yfir síðan Al­þingi kom saman eftir jóla­frí. Önnur um­ræða frum­varpsins hófst með hefð­bundnum hætti og tóku þing­menn úr flestum flokkum þátt. Þing­­menn Pírata héldu um­ræðunni á­fram svo dögum skiptir en þing­flokkurinn krafðist þess að frum­varpið fari aftur til alls­herjar- og mennta­­mála­­nefndar fremur en í þriðju um­ræðu. Alls­herjar- og mennta­­mála­­nefnda tók 13 fundi um frum­varpið eftir fyrstu um­ræðu og sendi út 116 um­­­sagnar­beiðnir til marg­vís­­legra aðila og fékk 27 skrif­leg svör til baka.

Í til­kynningu frá Pírötum segir að það sé full­reynt að opna augu stjórnar­liða og hvetja þau til að standa vörð um stjórnar­skránna.

„Þrátt fyrir að frum­varpið hafi hlotið al­var­lega gagn­rýni frá um­sagnar­aðilum hefur stjórnar­meiri­hlutinn á þingi á­kveðið að hafa málið á­fram í for­gangi á kostnað annarra mála, í stað þess að hlusta á gagn­rýnina og gera um­bætur á frum­varpinu, eða draga það til baka, en dag­skrár­valdið er í höndum meiri­hlutans,“ segir í til­kynningunni, en Píratar telja sig hafa sagt sitt um málið að sinni.

Þá segja Píratar að meiri­hlutinn óttist ó­háða út­tekt á frum­varpinu, en flokkurinn hefur kallað eftir því að hlustað sé á að­finnslur um­sagnar­aðila. Í stað þess að mæta gagn­rýni með mál­efna­legum hætti hafi meiri­hlutinn að­eins talað um meint mál­þóf og haldið því fram að Píratar séu með þingið í gíslingu.

„Við teljum okkur hafa reynt til þrautar að kalla fram lýð­ræðis­legt sam­tal, en meiri­hlutinn hefur ekki verið til í það. Ef þau telja málið nógu vel unnið ætti enginn að þurfa að óttast ó­háða út­tekt á jafn sjálf­sögðum hlut og því hvort frum­varpið sam­ræmist á­kvæðum stjórnar­skrárinnar, en fram­koma meiri­hlutans bendir þvert á móti til þess að þau viti upp á sig sökina,” segir Arn­dís Anna Kristínar­dóttir Gunnars­dóttir, þing­maður Pírata.