Þingmenn Pírata furða sig á því að Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra ætli að leggja fram frumvarp um afglæpavæðingu fíkniefna eftir að meirihlutinn hafnaði nákvæmlega sama máli sem Píratar lögðu fram.

Nýjar fréttir

Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata og fyrsti flutningsmaður frumvarpsins, furðar sig á þessum fregnum.

Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, sem greiddi atkvæði gegn frumvarpinu, greindi frá þessu í grein á Vísi í morgun og Villhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði það sama í útvarpinu í morgun.

„Það eru algjörlega nýjar fréttir fyrir mér. Ég var búin að heyra orðróm um þetta eftir að samningar voru gerðir. Ég heyrði þetta fyrst hjá Villhjálmi og nú aftur hjá Kolbeini. Mér fannst þetta furðulegt miðað við viðbrögðin sem við fengum við þingsályktunartillögu okkar,“ segir Halldóra í samtali við Fréttablaðið.

Píratar höfðu upphaflega gert kröfu um að greidd yrðu atkvæði um málið en meirihlutinn vildi vísa því til ríkisstjórnarinnar.

Engin áhugi fyrir samtali

Þá hafi Halldóra komið með málamiðlun í miðri pattstöðu um að breyta málinu í þingsályktunartillögu sem felur heilbrigðisráðherra að koma með frumvarp. Þannig væri komið til móts við áhyggjur meirihlutans um að málið væri ekki nægilega vel unnið.

„En það var slegið af borðinu án frekari umræðu. Það var aldrei komið til baka með neitt til okkar og það var enginn áhugi til að eiga samtal við okkur um hvernig þingsályktunartillaga myndi líta út og hver tímaramminn væri. Það var ekki vilji fyrir því að binda ráðherra til að koma með frumvarp og meirihlutinn vildi frekar vísa málinu til ráðherra með frávísunartillögu,“ segir Halldóra og bætir við að ef þetta sé rétt, að ráðherra ætli að leggja fram sama mál þá sé það fagnaðarefni.

„Fokkaðu þér“

Flokksbróður Halldóru, Björn Leví Gunnarsson, fer ófögrum orðum um meirihlutann. Hann velti fyrir sér hvers vegna frumvarpið hafi verið slegið af borðinu ef ráðherra ætli svo að leggja fram sama mál.

„Fokkaðu þér. Við vildum atkvæðagreiðslu um málið þar sem þingmenn geta beitt sannfæringu sinni. Þessi útúrsnúningur þinn er jafn ömurlegur og þessi málflutningur þinn í málinu,“ skrifar Björn Leví í svari við grein Kolbeins.

„Kolbeinn er spaði. Þessi grein lýsir spaðahætti mjög vel. Hvítt verður svart og svart verður gult.“

Björn Leví birti síðar færslu þar sem hann sagði það rangt af sér að ýja að því að Kolbeinn ætti „að fokka sér“. Hann segist hafa jafn rangt fyrir sér og grein Kolbeins um afglæpavæðingu.