Samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup eru Píratar með meira fylgi í dag en í kosningunum fyrir rúmum mánuði en Sjálfstæðisflokkurinn með minna fylgi.
Alls segjast 62 prósent þeirra sem tóku þátt í könnunni styðja ríkisstjórnina en samkvæmt könnuninni eru ríkisstjórnarflokkarnir þrír með 53 prósenta fylgi sem er einu prósentustigi minna en í kosningunum.

Ný ríkisstjórn í næstu viku
Greint var frá því í gær að líklega verði ný ríkisstjórn og stjórnarsáttmáli kynntur í næstu viku. Stjórnarflokkarnir hafa fundað stíft frá kosningum 25. September.
„Við þurfum að nýta helgina vel og dagana þar í framhaldinu og þá trúi ég að þetta fari að klárast,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra í Fréttablaðinu í gær um ganginn í viðræðum stjórnarflokkanna um áframhaldandi stjórnarsamstarf.