Píratar bæta mestu við sig, 1,7 prósentum, milli kannana sem Zenter rannsóknir gerðu fyrir Fréttablaðið. 13,6 prósent segjast ætla að kjósa flokkinn nú en hann fékk 9,2 prósent í alþingiskosningunum árið 2017.

Tveir stærstu flokkarnir bæta einnig við sig milli kannana. Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærstur með 23,1 prósent og Samfylkingin með 16,1.

Miðflokkurinn og Viðreisn bæta einnig við sig en sú bæting er óveruleg. Mælist Miðflokkurinn með 8,9 prósent og Viðreisn með slétt 10.

Vinstri græn tapa óverulegu fylgi milli kannana og mælast með 11,5 prósenta fylgi en Framsóknarflokkurinn tapar 1,2 prósentum og mælist með 7,2.

Sósíalistaflokkurinn og Flokkur fólksins ná hvorugir yfir 5 prósenta þröskuldinn, sem er lágmarkið til þess að fá jöfnunarþingmann. Sósíalistar tapa 0,7 prósentum og mælast með 3,8. Flokkur fólksins er sem fyrr með 4,4 prósenta fylgi.

Þegar litið er til kyns kemur í ljós að Vinstri græn hafa mun meira fylgi hjá konum en körlum, 18 prósent á móti 7. Miðflokkurinn höfðar mun meira til karla en kvenna, eða 13 prósent á móti 4. Kynjamunur annarra flokka er óverulegur.

Þegar litið er til aldurs kemur í ljós að Píratar njóta meira fylgis hjá yngri kjósendum, mest 25 prósent hjá 35 til 44 ára. Miðflokkurinn er vinsælli hjá eldri kynslóðinni, 15 prósentum 65 ára og eldri, en hefur aðeins 4 prósenta fylgi hjá 25 til 34 ára.

Munurinn á fylgi eftir búsetu er mestur hjá Framsóknarflokki. En 13 prósent landsbyggðarfólks myndu kjósa flokkinn nú en aðeins 4 prósent íbúa á höfuðborgarsvæðinu.

Könnunin var send á könnunarhóp Zenter rannsókna og var gerð 15. til 18. júní síðastliðinn. Í úrtaki voru 2.500 einstaklingar, 18 ára og eldri, en svarhlutfall var 50,5 prósent.