Sjálfstæðisflokkurinn tapar enn fylgi og mælist nú með 20,1 prósent, samkvæmt könnun sem Prósent gerði fyrir Fréttablaðið. Tapar flokkurinn rúmu prósenti frá könnun síðustu viku. Samfylkingin er næststærsti stjórnmálaflokkur landsins og mælist með 14,7 prósent. Píratar mælast nú með 13,1 prósent í stað 11,5 prósenta í síðustu viku og bæta við sig rúmu einu og hálfu prósenti.

Framsóknarflokkurinn fær nú 12,2 prósent og VG 10,7 prósent. Ríkisstjórnin er því kolfallin samkvæmt könnuninni, þar sem samanlagt fylgi flokkanna þriggja er aðeins 43 prósent.

Viðreisn fær 9,3 prósent, Sósíalistar 6,9 prósent, Miðflokkurinn 6,6 prósent og Flokkur fólksins 5,2 prósent. Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn mælist með 1,1 prósent. Samkvæmt könnuninni koma níu framboð mönnum á þing, sem yrði einsdæmi í Íslandssögunni.

Höfuðvígi Sjálfstæðisflokksins er hjá formanninum í Kraganum, þar sem flokkurinn fær 29,7 prósent. Samfylkingin er sterkust í Reykjavík, hefur 22 prósent í Reykjavík norður og því flýgur Jóhann Páll Jóhannsson á þing samkvæmt könnuninni og Rósa Björk Brynjólfsdóttir sem vermir 2. sætið í hinu Reykjavíkurkjördæminu líka, þar sem flokkurinn er með tæp 20 prósent. Kosninganóttin gæti orðið spennandi fyrir Guðmund Andra Thorsson sem vermir 2. sæti í Kraganum, þar sem flokkurinn mælist með 12,2 prósenta fylgi. Oddný Harðardóttir fellur hins vegar af þingi samkvæmt könnuninni því flokkurinn mælist aðeins með 5,4 prósent í Suðurkjördæmi.

Eins og Samfylking eru Píratar sterkastir í Reykjavík. Flokkurinn er með rúm 19 prósent í báðum Reykjavíkurkjördæmunum en fylgið er mun lakara á landsbyggðinni, þar sem eina þingmannsvonin virðist vera í Einari Brynjólfssyni í Norðausturkjördæmi.

Tæpt er að ráðherra Framsóknarflokksins, Ásmundur Einar Daðason, fái þingsæti í Reykjavík norður og gæti hann þurft að treysta á jöfnunarsæti samkvæmt könnuninni.

Sósíalistar mælast með meira en 6 prósenta fylgi í öllum kjördæmum nema Kraganum. Fylgi Miðflokksins er undir þremur prósentum í Reykjavíkurkjördæmunum og því ekki útlit fyrir að leit flokksins að kvenframbjóðendum í borginni skili sér í þingstyrk. Formaðurinn er hins vegar öruggur með þingsæti, en flokkurinn er með 12,5 prósent í hans kjördæmi fyrir norðan.

Könnunin var framkvæmd dagana 17.-21. september. 2.500 einstaklingar voru spurðir og svöruðu 1.244, eða um 50 prósent.