Gísli Rafn Ólafsson, þingmaður Pírata, segir að hann hafi skilning á því að nú sé verið að herða aðgerðir í ljósi stöðunnar á spítalanum og samfélaginu en að hann hafi minni skilning á því að staða spítalans sé svo slæm.
„Enn og aftur sjáum við þetta „herða og sleppa“ í þessum aðgerðum og það sem að vandamálið er að það er aldrei ráðist að rót vandans. En það er að heilbrigðiskerfið okkar er fjársvelt og við vissum það áður en Covid hófst að það þyrfti að bæta hlutina þar,“ segir Gísli Rafn í samtali við Fréttablaðið.
Hann segir að í kosningunum 2017 hafi verið fjallað um í nánast öllum stefnuskrám um endurreisn heilbrigðiskerfisins en að enn hafi ekkert gerst í þeim málum, árið 2021.
„Um leið og það koma fleiri smit þá nær spítalinn ekki að halda í við,“ segir Gísli Rafn.
Hann vísar til þess að á spítalanum hafi bæði legurýmum fækkað og gjörgæslurýmum á síðustu árum. Fjallað var um málið í gær á vef Fréttablaðsins en þar sagði Anna Sigrún Baldursdóttir, framkvæmdastjóri skrifstofu forstjóra Landspítalans, að það mætti rekja til skorts á sérhæfðu gjörgæslustarfsfólki.
„Það hefur verið þannig í gegnum síðasta kjörtímabil að Sjálfstæðisflokkurinn hefur neitað að setja aukið fjármagn inn í þetta verkefni og það er að sýna sig í dag að við getum ekki tekist á við þessar áskoranir sem að koma upp með auknum fjölda smita. Þetta lendir allt á okkur í frelsisskerðingu,“ segir Gísli Rafn.
Það er oft talað um mönnunarvanda á spítalanum.
„Já, mönnunarvandi því þau fá ekki að ráða fleira fólk. Þau hafa ekki fjármagn til að ráða fleira fólk. Þau hafa sagt að þau geta tæknilega séð fjölgað rýmum ef þau hefði meira mannskap. Vandamálið er það að mikið af okkar heilbrigðisstarfsfólki hefur gefist upp og farið erlendis,“ segir Gísli Rafn.
Hann kallar eftir því að það fari fram alvöru umræða um heilbrigðiskerfið þegar fjárlagaumræðan fer af stað þegar þing verður loks sett að nýju eftir kosningar.
„Það þarf að leggja meiri pening í þetta og það er hægt að fara í önnur verkefni þegar það er búið að slökkva eldana. Fjárlagaumræðan hefst þegar þing kemur saman og við viljum sjá umræðu um að það verði lagað sem er að í heilbrigðiskerfinu,“ segir Gísli Rafn að lokum.