Tvö ungmenni, þar af einn piltur undir lögaldri, voru handtekin í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum í gær vegna gruns um að þau stæðu að sölu og dreifingu fíkniefna.

Í bifreið þeirra fundust kannabisefni og pokar með hvítu efni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum.

Við húsleit fannst umtalsvert magn af hvítu efni í pokum og reyndust ungmennin einnig vera með mikið magn af peningaseðlum.

Skýrsla var tekin af ungmennunum og að henni lokinni voru þau frjáls ferða sinna. Lögreglan þurfti að tilkynna málið til Barnaverndarnefndar vegna piltsins sem er undir lögaldri.

Málið er nú í rannsókn lögreglunnar.