Píkudagar Femínistafélags Háskóla Íslands verða í fyrsta sinn haldnir í ár. Dagarnir hafa áður verið haldnir undir formerkjum Túrdaga en í ár ákvað stjórn félagsins að víkka út umfjöllun til að bregðast við breyttri samfélagslegri umræðu.

„Vegna þess að það er komin aðeins meiri samfélagsumræða um túr þá fannst okkur nauðsynlegt að víkka þetta þannig að það væri talað um píkuna í heild sinni. Sandra, formaðurinn okkar, orðaði þetta vel þegar hún sagði „Við erum með píku allt árið, en flestir eru ekki á túr allt árið“,“ segir Margrét Steinunn Benediktsdóttir, ritari Femínistafélags Háskóla Íslands, í samtali við Fréttablaðið í dag.

Hún segir að markmiðið sé einnig að auka umræðu almennt um píkur og að ýta undir að fólk noti orðið píka þegar það talar um hana.

„Fólk notar svo mismunandi orð, eins og budda og pjalla, á meðan það hefur alltaf verið eitt orð sem er notað yfir typpi. Það hefur líka oft verið feimnismál. Mér fannst meira að segja erfitt að nota það og hef verið að venja mig á það,“ segir Margrét.

Píkupöbbkviss og píkudaga-kokteill

Píkudagarnir verða formlega settir í dag, þriðjudaginn 26. Mars, kl. 17 í Stúdentakjallaranum með Píkupöbbkvissi þar sem spurningarnar verða allar tengdar píkunni. Spurningarnar voru allar samdar af Margréti og segir hún að fyrir sigurliðin verði veglegir vinningar í boði.

„Það verður líka píkudaga-kokteill sem verður hægt að prófa,“ segir Margrét.

Á viðburðinum mun einnig listakonan Íris Stefanía lesa upp úr bók sinni „Þegar ég fróa mér – þrjátíu og eitthvað sjálfsfróunarsögur frá konum“.

Sjá einnig: Vill opna umræðu um sjálfsfróun kvenna

Túrtorg og frjósemisfrelsi

Margrét segir að þrátt fyrir að þema daganna hafi verið breytt þá verði enn haldið eitthvað í gamla þemað. Á morgun verður því, meðal annars, Túrtorg á Háskólatorgi þar sem hægt verður að kaupa ýmsar fjölnota túrvörur, auk fyrirlestra um heilsu píkunnar og um fjölnota túrvörur klukkan 12, á Litla Torgi.

Lokaviðburður píkudagana er málþing um frjósemisfrelsi kvenna á Íslandi á fimmtudaginn. Þar verður rætt um rétt kvenna til að ákveða hvort, hvenær og hvernig þær eignast börn við fulltrúa þingflokka. Þar verður sérstaklega tekið fyrir fyrirliggjandi frumvörp um þungunarrof og fæðingarstyrk vegna ættleiðingar, en einnig verður tekið við spurningum úr sal.

„Það eru tvö frumvörp sem liggja fyrir núna. Um þungunarrof og um fæðingarstyrk vegna ættleiðingar. Okkur finnst mikilvæg að skapa umræðu um þessi frumvörp og að hún sé ekki bara á þinginu, heldur að það sé opið fyrir alla. Þetta er rosalega mikilvægt og frjósemisfrelsi snertir alla,“ segir Margrét.

Málþingið hefst klukkan 17 á fimmtudaginn og er öllum opið. Nánari upplýsingar um píkudaga má finna hér.