Vagn á vegum Strætó festi sig neðarlega á Hverfisgötunni rétt í þessu. Vagninn kemur í veg fyrir að umferð úr báðum áttum komist leiðar sinnar.
Ljóst er að tafir muni verða á ferðum Strætó þar sem nú þegar eru minnst tveir vagnar fastir við enda götunnar og komast ekki lengra.
Bílstjórinn er farinn úr vagninum en ekki er útlit fyrir að hann losni á næstunni. Hann sagði aðspurður við blaðamann Fréttablaðsins að fimmtán manns hafi verið um borð þegar vagninn festist. Bílstjórinn vildi ítreka að dekkjabúnaður vagnsins væri ekki nægilega góður til að eiga við svona veður. Hann hafði mælst til þess að Strætó ætti að hætta að aka upp Hverfisgötu frá Lækjargötu þar til að aðstæður bötnuðu.
Búið er að óska eftir aðstoð.
Uppfært: 17:38
Vagninn er laus eftir að hafa staðið fastur í rúman hálftíma og hefur opnast fyrir umferð á ný.

