Phoenix J. Ramos hefur boðið sig fram til 1. varaforseta Alþýðusamband Íslands. Í tilkynningu frá henni segir hún að henni þyki mikilvægt að konur veljist til forystu innan ASÍ og ekki síst konur af erlendum uppruna.

„Okkar raddir þurfa að heyrast. Ég er félagi í VR og tel líka mikilvægt að VR eigi fulltrúa meðal varaforseta,“ segir hún og að hún vilji leggja áherslu á vinnustaðaeftirlitið verkalýðshreyfingarinnar þar hæst.

„Ég starfaði sem vinnustaðaeftirlitsfulltrúi hjá Eflingu og kynntist í gegnum það starf þeirri umfangsmiklu brotastarfsemi sem á sér stað á íslenskum vinnumarkaði. Þolendur eru nánast alltaf láglaunafólk og oft af erlendum uppruna. Ég vil beita mér fyrir eflingu vinnustaðaeftirlitsins og um leið fyrir bættum réttindum launafólks og raunverulegum viðurlögum gegn launaþjófnaði og öðrum brotum á vinnumarkaði,“ segir hún.

Auk hennar hefur Trausti Jörundsson, formaður Sjómannafélags Eyjafjarðar, boðið fram til 2. varaforseta ASÍ.

„Ég tel mikilvægt að smærri aðildarfélög og félög á landsbyggðinni eigi fulltrúa innan forystu ASÍ og vil beita mér fyrir breiðri samstöðu í kjaraviðræðum vetrarins. Launafólk á mikið undir því að Alþýðusamband Íslands virki sem skyldi,“ segir hann í tilkynningu.

Fyrir þingið hafði verið greint frá því að Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, og Ólöf Helga Adolfsdóttir ritari Eflingar sækist bæði eftir embætti forseta.

Á vef RÚV kemur fram að þau Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfjarða, Þórarinn Sverrisson, formaður Öldunnar, og Anna Júlíusdóttir, varaformaður Einingar Iðju, hafi jafnframt öll tilkynnt framboð til miðstjórnar.

Þinginu hófst í gær og lýkur á morgun. Þá mun liggja fyrir niðurstaða kosninganna.