Lyfjarisinn Pfizer vill ekki staðfesta frásögn Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, um að danskur fulltrúi Pfizer hafi brotið trúnað.

Kári sagði í viðtali við Fréttablaðið í vikunni að Danir hafi reynt að eyðileggja viðræður Íslendinga við Pfizer um að rannsaka áhrif bóluefnis á heila þjóð.

Rótin að þessu sé trúnaðarbrestur umboðsmanns Pfizer í Skandinavíu, danskrar konu sem Kári segir heita Mette. „Hún var á fundinum sem við áttum við vísindamenn Pfizer,“ sagði Kári.

Segist hann hafa fengið skilaboð tveimur dögum eftir fundinn frá yfirmanni sóttvarnastofnunar Danmerkur, Statens Serum Inst­itut, um að Danir hefðu verið í viðræðum við Pfizer. „Hann sagði að Mette hefði sagt þeim frá viðræðunum og hann ætlaði að reyna að sjá til þess að Danir fengju að vera með,“ sagði Kári. Hann dró svo í land með að Danir hafi reynt að eyðileggja viðræðurnar, það sé þó óheppilegt að Mette hafi sagt frá þessu.

Vísir greinir frá því að Pfizer vilji ekki kannast við frásögn Kára. Verið sé að meta nokkrar tillögur frá mismunandi löndum á virkni bóluefnisins, þar á meðal tillaga frá Íslandi. Vill fyrirtækið ekki tjá sig meira um málið á meðan viðræður séu í gangi.