Pfizer og Biontech sendu frá sér tilkynningu í morgun um nýjan samning sem fyrirtækin hafa gert við Evrópusambandið.

ESB hefur samið um kaup á 200 milljónum skammta umfram það sem áður hafði verið ákveðið og kauprétt á 100 milljón skömmtum til viðbótar. Tilkynningin frá Pfizer er staðfesting á samningnum sem fyrst var greint frá fyrir fimm dögum síðan.

Samkvæmt nýja samningnum fær ESB alls 500 milljón skammta af bóluefninu COMIRNATY og eiga allir skammtar að vera afhentir á þessu ári, þar af eiga 75 milljón skammtar að hafa borist á öðrum ársfjórðungi.

„Við vitum að fleira fólk þarf að vera bólusett eins og fljótt og auðið er til að vinna bug á þessari veiru og ná tökum á faraldrinum. Við erum að vinna linnulaust að því að styðja við frekari innleiðingu bóluefnisins í Evrópu og um allan heim með því að auka framleiðslugetu okkar. Með þessum nýja samningi við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins reiknum við nú með að geta afhent nógu marga skammta til að bólusetja að minnsta kosti 250 milljónir Evrópubúa fyrir árslok,“ segir Albert Bourla, framkvæmdastjóri, Pfizer í tilkynningunni.

Albert Bourla, framkvæmdastjóri, Pfizer.
Fréttblaðið/ Getty images.

Um 200 þúsund Íslendingar bólusettir á öðrum ársfjórðungi

Líkt og greint var frá í byrjun vikunnar er gert ráð fyrir að hægt verði að bólu­setja tæp­lega 190.000 ein­stak­linga hér á landi fyrir lok júní næst­komandi með bólu­efnum Pfizer, AstraZene­ca og Moderna sem öll eru með markaðs­leyfi og komin í notkun hér á landi.

Nýi samningur ESB og Pfizer tryggir Íslandi bóluefni fyrir um 25 til 30 þúsund manns til viðbótar á öðrum árs­fjórðungi. 7381 einstaklingur hefur nú verið fullbólusettur hérlendis.

Fréttin hefur verið uppfærð.