Bólu­efni Pfizer og Moderna eru best í örvunar­bólu­setningu sam­kvæmt nýrri rann­sókn sem fram­kvæmd var í Bret­landi. Í rann­sókninni var skoðuð vörn sjö ó­líkra bólu­efna, sem öll veittu vörn gegn Co­vid-19, en mis­góða.

Greint er frá niður­stöðunni á vef breska ríkis­út­varpsins en þar segir að rann­sóknin sýni vel hvernig örvunar­bólu­setningin virkar og er talið rétt­læta á­kvörðun breskra yfir­valda að nota þessi tvö bólu­efni í örvunar­skammt. Að sögn rann­sak­enda væri jafn­vel hægt að nýta hálfan skammt til að nýta bólu­efnin enn betur.

Að sögn rann­sak­enda er örvunar­bólu­setningin talin veita góða vernd gegn al­var­legum veikindum og dauða veikist fólk af nýja af­brigði veirunnar, Ó­míkrón-af­brigðinu.

Bresk yfir­völd hafa pantað um 114 milljón skammta auka­lega af báðum bólu­efnum sem á að nýta næstu tvö árin.

Örvunar­bólu­setning er talin geta minnkað líkur á sýkingu um 93 prósent og hefur öllum yfir 18 ára aldri verið boðin slík bólu­setning í Bret­landi. Hér á Ís­landi er enn verið að inn­leiða bólu­setningar­á­tak yfir­valda en alls hafa 113 þúsund manns fengið örvunar­skammt.

Alls tóku um 3.000 ein­staklingar þátt í rann­sókninni og var þeim gefinn örvunar­skammtur um þremur mánuðum eftir að þau fengu sinn annan skammt af annað hvort AstraZene­ca eða Pfizer. Af sjö ó­líkum bólu­efnum þá voru þau öll talin örugg og helstu auka­verkanir voru þreyta og höfuð­verkur. Ó­næmi var aukið með öllum sjö bólu­efnum hjá þeim sem fengu tvo skammta af AstraZene­ca og sex þeirra virkuðu vel til að auka ó­næmi hjá þeim fengu upp­runa­lega tvo skammta af Pfizer, en sum virkuðu betur en önnur.

Fram kemur í á vef BBC að mRNa bólu­efni Moderna og Pfizer veittu besta vörn og að þau hafi virkað jafn vel fyrir þau sem eru yfir 70 ára og yngri en 70 ára. Þá segja rann­sak­endur að vörnin sé góð gegn öllum þeim af­brigðum sem voru til staðar þegar rann­sóknin fór fram og að þeir vonist til þess að hún virki einnig vel gegn Ó­míkrón-af­brigðinu.

Hægt er að kynna sér rann­sóknin betur hér á vef Lancet.