Banda­ríski lyfja­­risinn Pfizer hefur veitt lyfja­­fram­­leið­endum í fá­tækari ríkjum heims leyfi til að fram­­leiða nýtt lyf við Co­vid-19 svo tryggja megi að hægt verði að koma þeim til sem flestra. Þó eru mörg ríki sem orðið hafa illa fyrir barðinu á far­aldrinum undan­skilin, til að mynda Brasilía, sam­kvæmt frétt New York Times.

Sam­kvæmt sam­komu­lagi sem Pfizer og Medicine Patent Pool (MPP), ó­hagnaðar­drifinna sam­taka sem njóta stuðnings Sam­einuðu þjóðanna, hafa gert með sér fá lyfja­fram­leið­endur leyfi til að fram­leiða lyfið án þess að borga höfundar­rétt. Fyrir­tækin fá í hendurnar lyfja­for­múluna og geta selt lyfið til 95 landa, einkum í Afríku og Asíu, er lyfja­stofnanir veita leyfi fyrir notkun þess.

„Við þurfum að tryggja að allir - að undan­skildu frá hvar þeir búa eða hverjar að­stæður þeirra séu - hafi að­gang að þessum tíma­móta­lyfjum og við erum á­nægð að geta starfað með MPP til að vinna að jafn­rétti,“ segir Albert Bourla, for­stjóri Pfizer.

Áður hefur lyfja­fyrir­tækið Merck til­kynnt að sam skonar sam­komu­lag um fram­leiðslu á lyfinu molnu­virapir, veiru­eyðandi lyfs sem sam­kvæmt til­raunum dregur mjög úr líkum á inn­lögnum eða al­var­legum veikindum af völdum Co­vid-smits. Lyf Pfizer kallast Paxlo­vid og er hugsað einkum fyrir eldri borgara og fólk með undir­­­liggjandi á­hættu­þætti. Líkt og molnupira­vir er um veiru­hamlandi lyf að ræða.

Nú þegar hafa fjöl­mörg efnaðri ríki gert sam­komu­lag við Merck og Pfizer um kaup á lyfjunum, þar á meðal Ástralía, Bret­land og Banda­ríkin.

MPP gerir ráð fyrir að starfa með í það minnsta tug lyfja­fram­leið­enda. „Við gefum ekki hverjum sem er leyfi. Á sama tíma viljum við tryggja að nægt fram­boð sé,“ segir Charles Gore, fram­kvæmda­stjóri MPP við Wall Street Journal. Hann segir að búast megi við því að fram­leiðsla geti hafist um mitt næsta ár enda sé tíma­frekt að hefja fram­leiðslu og bíða þurfi eftir heimild lyfja­stofnana.

Heil­brigðis­yfir­völd og sér­fræðingar hafa í­trekað lýst á­hyggjum sínum af því að fá­tækari lönd hafi minni að­gang að lyfja­með­ferð við Co­vid-19, líkt og raunin hefur verið með bólu­efni.

„Svæðið sem leyfið er veitt fyrir er stórt og því verið lítið sinnt af bólu­efna­fram­leið­endum, sem gerir lyfja­með­ferð sem ódýr er í fram­leiðslu einkar mikil­væga,“ segir James Love hjá neyt­enda­sam­tökunum Know­led­ge Ecology International.