Pétur Markan, upplýsingafulltrúi Biskupsstofu og fyrrverandi sveitarstjóri, hefur sagt sig úr Samfylkingunni.

Pétur segir í tilkynningu sem hann birti á samfélagsmiðlum í dag að hann hafi lengi hugsað um málið og alltaf ákveðið að bíða og sjá. Hann fer yfir það að hann hafi verið þátttakandi í flokknum frá upphafi hans og þar hafi hann fundið sér stað „meðal ólíkra einstaklinga með sömu hugsjón - jöfnuð á breidd samfélagsins.“

Hann segir að hann hafi í gegnum tíðina gegnt mörgum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn en segir að nú hafi erindi flokksins breyst frá því að vera „breiðfylking yfir í pólitískt jaðarsamfélag vina“ og í ljósi þess hafi hann ekki sjálfur erindi innan flokksins, vilja til að fylgja honum eða félagslega uppörvun.

„Það hefur fyrst og fremst birst í því að ég hef ekki viljað gefa kost á mér til trúnaðarstarfa eða verið í framboðs hugleiðingum. Lesið sameiginlegt spjall flokksins á netinu og velt fyrir mér hvort það sé ekki ljós að finna annars staðar.

Það eru því ekki pólitísk frama-vonbrigði eða listablús sem eru til grundvallar þessari ákvörðun,“ segir Pétur.

Hann segir að hann verði áfram jafnaðarmaður og þakkar fyrir samstarfið.

Færslu hans má sjá hér að neðan.

Eftirfarandi bréf sendi ég á Samfylkinguna í morgun. Ég birti það hér til upplýsingar. Ég ætla ekki að hafa frekari orð...

Posted by Pétur G. Markan on Thursday, 15 April 2021