Peter Madsen, sem var dæmdur í lífs­tíðar­fangelsi í Danmörku árið 2018 fyrir morðið á sænsku blaða­konunni Kim Wall, er genginn í hjóna­band. Hann kvæntist rúss­nesku blaða­konunni Jenny Kurpen 19. desember síðast­liðinn en þau opin­beruðu hjóna­bandið á Face­book á dögunum.

Jenny Kurpen er rúss­neskur lista­maður og aktív­isti bú­settur í Finn­landi. Afton­bladet greinir frá en þar segir að Kurpen hafi flúið heimland sitt eftir að hafa verið sak­sótt fyrir þátt­töku sína í mót­mælum gegn Vla­dimír Pútín Rúss­lands­for­seta árið 2012, og í fram­haldinu fengið pólitískt hæli í Finn­landi.

Kurpen vildi ekki tjá sig við Afton­bladet og sagðist ekki hafa á­huga á að vekja sér­staka at­hygli á einka­lífi sínu í fjöl­miðlum. Hún hefur birt fjöl­margar myndir á Insta­gram-síðu sinni undan­farna daga og merkir þær með myllu­merkjum á morð við #mrsma­dness, #fu­ture, #happiness og þar fram eftir götunum.

Kurpen var ný­verið til við­tals í rúss­nesku dag­blaði þar sem hún segir frá lista­verki sem hún er að hanna til varnar Madsen, eigin­manni sínum. Madsen var sem fyrr segir dæmdur fyrir morðið á Kim Wall árið 2017. Morðið var hrotta­fengið en Wall hitti Madsen um borð í kaf­báti hans vegna blaða­greinar sem hún var að vinna að. Wall sneri aldrei aftur en Madsen neitaði al­farið að hafa ráðið henni bana. Hann viður­kenndi hins vegar að hafa bútað lík hennar og varpað í sjóinn.

Madsen hóf af­plánun sína árið 2018 en lífs­tíðar­dómur í Dan­mörku jafn­gildir al­mennt sex­tán árum.