Tæpt er á munum milli tveggja frambjóðenda sem vart gætu verið ólíkari í forsetakosningum í Perú. Landsmenn gengu til kosninga á sunnudaginn til að velja á milli kennarans og verkalýðsforingjans Pedro Castillo og stjórnmálakonunnar Keiko Fujimori. Frambjóðendurnir þykja hvor um sig lengst til vinstri og hægri í perúskum stjórnmálum.

Hvorugur þessara frambjóðenda hlaut verulegt brautargengi í fyrri umferð kosninganna sem fór fram þann 11. apríl. Castillo hlaut þar aðeins 18,92 prósent atkvæða og Fujimori 13,41 prósent en þetta nægði engu að síður til að skila þeim fyrsta og öðru sætinu þar sem um var að ræða troðfullar kosningar á milli átján frambjóðenda.

Kosningarnar bera merki um margklofið og óstöðugt pólitískt landslag í Perú en á síðustu þremur árum hefur landið haft fjóra forseta: Pedro Pablo Kuczynski, sem sagði af sér árið 2018; Martín Vizcarra, sem féll fyrir vantrauststillögu í fyrra; Manuel Merino, sem sagði af sér vegna mannskæðra mótmæla eftir aðeins fimm daga í embætti; og núverandi forsetann Francisco Sagasti, sem leiðir starfsstjórn fram að kosningum. Efnahagur landsins er í molum vegna kórónaveirufaraldursins og dauðsfall vegna Covid-19 er það hæsta í heimi miðað við höfðatölu.

Castillo á kosningasamkomu ásamt stuðningsmönnum sínum. Blýanturinn er einkennistákn Frjáls Perú.
Fréttablaðið/Getty.

Pedro Castillo er frambjóðandi öfgavinstriflokksins Frjáls Perú (sp. Perú Libre). Castillo hefur áður farið fögrum orðum um stjórn Nicolásar Maduro í Venesúela en hefur í seinni tíð dregið nokkuð í land með dálæti sitt á honum og lagt áherslu á að „enginn chavismi“ sé í kosningaherferð hans. Andstæðingar hans hafa jafnframt sakað hann um tengsl við kommúníska hryðjuverkahópinn Skínandi stíg og bent á marx-lenínískar hugsjónir sem fram koma í stefnuskrá Frjáls Perú.

Castillo hefur að mestu sótt fylgi sitt til perúsku landsbyggðarinnar og hefur stillt sér upp sem alþýðumanni en hann kemur gjarnan fram klæddur í ponsjó og með barðastóran kúrekahatt á höfði. Hann hefur lofað að setja landinu nýja stjórnarskrá í stað þeirrar sem sett var á tíma enræðis Alberto Fujimori á tíunda áratugnum. Hann hefur jafnframt viðrað hugmyndir um þjóðnýtingu á námu- og olíuiðnaði landsins en hefur síðar þvertekið fyrir að hafa nokkurn tímann lofað því.

Vonast til að náða föður sinn

Keiko Fujimori er leiðtogi Alþýðuvaldsins (sp. Fuerza Popular) og dóttir fyrrum forseta Perú, Alberto Fujimori. Á forsetatíð sinni á tíunda áratuginum tók Alberto Fujimori sér alræðisvald, leysti upp þing og dómstóla landsins og lét setja herlög. Stuðningsmenn „fujimorismans“ telja gamla forsetanum til tekna að hafa komið lagi á efnahag landsins og unnið bug á kommúnískum skæruliðahreyfingum. Andstæðingar hans benda aftur á móti á að Fujimori hafi haldið uppi dauðasveitum og framið mannréttindabrot eins og að þvinga hundruðir þúsunda perúskra frumbyggja til að gangast undir ófrjósemisaðgerðir. Þá hafi stjórn Fujimori verið gífurlega spillt, en Transparency International reiknast svo til að Fujimori hafi dregið sér andvirði um 600 milljónir Bandaríkjadala úr ríkissjóði á forsetatíð sinni.

Keiko Fujimori, frambjóðandi Alþýðuvaldsins, á kosningafundi.
Fréttablaðið/Getty.

Alberto Fujimori situr nú í fangelsi fyrir mannrán, fjárdrátt og mútugreiðslur en dóttir hans hefur lofað að náða hann nái hún kjöri á forsetastól. Sjálf liggur Keiko Fujimori undir ásökunum um spillingu í tengslum við Odebrecht-hneykslið svokallaða og sat um skeið í gæsluvarðhaldi í fyrra vegna væntanlegrar ákæru fyrir peningaþvætti. Kosningarnar í ár eru þriðja atlaga hennar að forsetaembættinu.

Þegar rúm 97 prósent atkvæðanna höfðu verið talin hafði Castillo naumt forskot á Fujimori með 50,221 prósent atkvæðanna gegn 49,779. Fujimori hafði naumt forskot í fyrstu útgönguspám og hefur borið fram ásakanir um kosningasvindl eftir að Castillo tók fram úr henni. Fujimori vonast þó til þess að ná forystunni á ný þegar byrjað er að telja atkvæði Perúmanna sem búa erlendis.