Útgefanda Lifandi vísinda var óheimilt að varðveita nafn og símanúmer áskrifanda eftir að hann sagði upp áskrift og nota upplýsingarnar til að markaðssetja nýjar áskriftarleiðir.

Þetta er niðurstaða Persónuverndar en málið hófst með kvörtun sem stofnuninni barst í september í fyrra.

Þar kveðst kvartandi hafa fengið símhringingu frá Elísu Guðrúnu ehf., útgáfufélagi Lifandi vísinda, og verið boðin áskrift að tímaritinu.

Taldi kvartandi sig hafa afþakkað boð um nýja áskrift en hann var staddur í útlöndum þegar símtalið barst og var sambandið lélegt.

Vildi ekki greiða kröfuna

Í framhaldinu segist hann hafa fengið tímarit sent heim og kröfu í heimabanka. Kvartandi hafði þá samband við skrifstofu tímaritsins og sagðist ekki hafa áhuga á að greiða kröfuna.

Jafnframt spurði hann hvers vegna haft hefði verið samband við hann. Svörin sem kvartandi fékk voru þau að verið væri að hringja í gamla áskrifendur og bjóða þeim áskrift á nýjan leik.

Taldi kvartandi að með þessu hafi Lifandi vísindi brotið gegn ákvæðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Beindi hann því erindinu til Persónuverndar og vildi fá úr því skorið hvort um væri að ræða óleyfilega vinnslu á persónuupplýsingum.

Að sögn Persónuverndar reynir hér á hvort Lifandi vísindum hafi verið heimilt að varðveita upplýsingar um nafn og símanúmer kvartanda, eftir að hann hafði sagt upp áskrift og nota þær síðar við beina markaðssetningu á nýjum áskriftarleiðum.

„Í þessu máli liggur ekki fyrir að hinn skráði hafi veitt samþykki sitt fyrir umræddri vinnslu og verður vinnslan því ekki talin hafa verið heimil á grundvelli þess,“ segir í úrskurðinum.

Félagið hafi ekki framkvæmt nauðsynlegt mat

Að mati Persónuverndar getur tímabundin varðveisla upplýsinga um nafn og símanúmer fyrrverandi viðskiptavina talist fara fram í þágu lögmætra hagsmuna félags samkvæmt persónuverndarlögum undir ákveðnum skilyrðum.

„Af skýringum Lifandi vísinda verður hins vegar ráðið að ekki hafi verið framkvæmt mat á nauðsyn þess að varðveita upplýsingarnar. Að auki hafi félagið ekki rökstutt sérstaklega hvernig hagsmunir þess af umræddri vinnslu hafi vegið þyngra en hagsmunir kvartanda.“

Í ljósi þessa telur Persónuvernd að umrædd vinnsla hafi ekki samrýmst persónuverndarlögum.