„Persónuvernd getur staðfest að ábending hefur borist frá Sjúkratryggingum Íslands um notkun viðkvæmra persónuupplýsinga hjá SÁÁ. Málið er í skoðun og því er Persónuvernd ekki unnt að tjá sig frekar á þessu stigi,“ segir Vigdís Eva Líndal, sviðsstjóri hjá Persónuvernd, í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Dagskrárstjóri SÁÁ hefur sakað Sjúkratryggingar (SÍ) um brot þegar SÍ fékk aðgang að sjúkraskrám og hringdi í skjólstæðinga SÁÁ. SÁÁ hefur ekki sent Persónuvernd kvörtun. SÍ hefur ríkar heimildir til eftirlits.

Árið 2020 varð sú breyting að nú geta Sjúkratryggingar kallað eftir upplýsingum úr sjúkraskrá í stað þess að skoða sjúkraskrá þar sem hún er vistuð.

Tiltekið er í lögum að eingöngu læknar eða heilbrigðisstarfsmenn hafi heimild til að skoða upplýsingar úr sjúkraskrám. Þá þarf upplýst samþykki sjúklinga undir ákveðnum kringumstæðum.

Persónuvernd veitir eingöngu leyfi í afmörkuðum tilvikum, einna helst þegar um er að ræða aðgang að upplýsingum í tengslum við rannsóknir á sviði félagsvísinda, lögfræði og sagnfræði, að sögn Vigdísar.