Persónuvernd hefur hafnað kröfu lögmanna Miðflokksins um frekari gagnaöflun í málinu. Þeir vildu meðal annars fá upplýsingar frá fjármálafyrirtækjum um greiðslur inn á reiking Báru Halldórsdóttur, sem tók samtal þeirra upp á Klaustri í nóvember í fyrra.

RÚV greinir frá niðurstöðu stjórnar Persónuverndar.

Í fréttinni kemur fram að þeir hafi líka viljað upplýsingar um símtöl og smáskilaboð til Báru. Vísað er í úrskurðinn þar sem segir að Persónuvernd telji sig ekki hafa heimild til öflunar upplýsinga frá fjarskiptafyrirtækjum og fjármálafyrirtækjum vegna kvörtunarmáls sem varði ekki viðkomandi fyrirtæki heldur í þessu tilviki Báru.

Fram kemur að lögmaður Miðflokksmanna telji sig hafa óræka sönnun fyrir því að Bára hafi undirbúið aðgerð sína vel . Hún hafi virt aðstæður fyrir sér kyrfilega í bíl sínum við Klaustur, tekið mynd af þingmönnunum þegar hún steig út úr bílnum og byrjað að taka upp um leið og hún settist niður. Allt benti til þess að um samverknað væri að ræða.

Þess má geta að Bára hefur þegar birt afrit af reikningsyfirliti sínu.