Stöðug upptaka eftirlitsmyndavéla í svefnskála unglingsstúlkna á fótboltamótinu ReyCup um helgina gæti komið til skoðunar hjá Persónuvernd.

„Ég hugsa að við ræðum þetta í fyrramálið," segir Helga Sigríður Þórhallsdóttir, sérfræðingur hjá Persónuvernd og staðgengill Helgu Þórisdóttur forstjóra sem er í sumarfríi.

Helga Sigríður hafði ekki náð að kynna sér málið í dag, umfram það sem fram hefur komið í fjölmiðlum, þegar Fréttablaðið ræddi við hana. Málið geti vel heyrt undir Persónuvernd enda reglur um þetta í persónuverndarlöggjöfinni.

Eins og Fréttablaðið greindi frá stuttu fyrir hádegi, áttuðu fótboltastúlkur, sem taka þátt í ReyCup, sig sjálfar á því í gærkvöldi að eftirlitsmyndavélar í svefnsal þeirra í laugardalshöll voru í gangi. Þær höfðu oft verið fáklæddar og jafnvel naktar í rýminu og voru eðlilega ósáttar við að vera á upptöku.

Taka við kvörtun eða fara í frumkvæðisathugun

Helga segir að koma þurfi í ljós hvort stofnuninni berist erindi um málið eða hvort stofnunin fari sjálf af stað og kalli eftir svörum. Þetta verði rætt í fyrramálið.

„Við munum fylgjast með þessu áfram og ef við fáum kvörtun frá einhverjum sem þarna á í hlut, þá tökum við hana alltaf til meðferðar og ef ekki þá metum við hvort við teljum ástæðu til að fara sjálf á stúfana og könnum þetta,“ segir Helga.

Stúlkurnar fóru sjálfar á stúfana og rannsökuðu malið. Þær mynduðu þennan skjá þar sem sjá má svefnaðstöðu þeirra í mynd.
Aðsend mynd.

Birgir Bárðarson framkvæmdarstjóri hallarinnar sagði Fréttablaðinu í morgun að um handvömm hjá mótshöldurum hafi verið að ræða.

„Það var ekki talað um það sérstaklega að það þyrfti að slökkva á þeim. Ef slökkva hefði átt á þeim þá hefði þurft að hafa samband við mig og það var ekki gert,“ sagði Birgir.

Hann lagði áherslu á að ekki væri um faldar myndavélar að ræða. „Þessar myndavélar eru ekki faldar. Það er öllum ljóst að það eru myndavélar í húsinu.“

Ísbúð sektuð vegna svipaðs máls

Aðspurð um atvik sambærileg þessu, segist Helga Sigríður ekki muna eftir einhverju alveg sambærilegu en bendir þó á nýlegan úrskurð Persónuverndar varðandi ísbúðina Huppu.

„Þar var rafræn vöktun í ísbúð og þar á meðal í starfsmannarými þar sem starfsmenn gátu skipt um föt,“ segir Helga en leggur þó áherslu á að engin tvö mál séu eins og alltaf eitthvað einstakt við hvert mál.

Per­sónu­vernd sektaði Huppuís ehf. um fimm milljónir króna vegna málsins í júní en kvörtun til Persónuverndar laut að raf­rænni vöktun í rými þar sem starfs­menn, sem margir eru undir lög­aldri, nota til að hafa fata­skipti í ein­kennis­búninga sína. Einnig var merkingum um vöktunina talið á­bóta­vant og ekki gætt að því að starfs­mönnum væri kunnugt um réttindi sín.