Face­book, Insta­gram og What­sapp lágu niðri í margrar klukk­stundir í gær. Þetta vakti á­hyggjur um að per­sónu­upp­lýsingar not­enda væru í hættu en Guð­mundur Arnar Sig­munds­son for­stöðu­maður CERT.is, net­öryggis­sveitar Fjarskiptastofu, segir engar vís­bendingar um að slíkar upp­lýsingar séu í hættu eða að árás hafi verið gerð á Face­book, sem einnig á Insta­gram og What­sapp.

Þetta segir Guð­mundur í sam­tali við rúv.is. Hann segir að sam­kvæmt þeim upp­lýsingum sem hann hafi virðist sem Face­book hafi hrunið af tveimur á­stæðum.

„Aðal­lega virðist sem að­ferðin sem notuð er til að aug­lýsa allar IP tölur, IP tölur eru heimilis­föng vef­þjónusta út á inter­netið, fór niður í gær. Og við það fóru niður svo­kallaðar nafna­þjónustur, þegar fólk setur nafnið Face­book.com inn í vafra þá vísar það yfir á þessar IP tölur sem eru heimilis­fangið,“ segir hann. Þessi kerfi hafi verið hýst hjá Face­book og svo virðist sem allt sam­band hafi dottið niður hjá fyrir­tækinu. Af þeim sökum hafi tækni­menn fyrir­tækisins ekki getað lag­fært bilunina.

Ekkert bendi til þess að við­kvæmar not­enda­upp­lýsingar hafi verið í hættu. „Nei, það er ekkert sér­stakt sem bendir til þess, þetta virðist bara vera þjónustu­rof, kerfið fer niður og þjónustan fer niður. Tækni­menn fara nú alltaf að kíkja hvort þetta sé hluti af ein­hverri árás, en það er ekkert sem að bendir til þess að þetta hafi verið árás í gær þó þetta hafi tekið langan tíma og virðist sem ein­göngu hafi verið um þjónustu­rof að ræða,“ segir Guð­mundur.