Viðkomandi eiga í vissum vanda með að nema umhverfi sitt og eiga samskipti við annað fólk og myndast mynstur sem geta verið býsna ósveigjanleg. Þá eru þau oft á skjön við það sem samfélag viðkomandi upplifir og þannig skapast talsverður munur á væntingum og upplifun og viss togstreita, sem hefur aftur veruleg áhrif á líf og líðan einstaklinga og fjölskyldna þeirra.

Við könnumst flest við það sem kallast samfélagsleg norm hegðunar og þess sem við væntum almennt frá öðrum í kringum okkur. Þetta getur skapað aðlögunarvanda einstaklinga sem glíma við þessar raskanir og trufla alla hlutaðeigandi. Það er þó býsna algengt að sá sem er veikur geri sér jafnvel ekki almennilega grein fyrir trufluninni, þar sem hegðun og gjörðir hans eru honum eðlilegar.

Oftast koma þessar raskanir fram á unglingsárum eða jafnvel fyrr og geta þær verið mjög afgerandi. En engu að síður eru til vægari form þar sem einstaklingurinn hefur ágæta hæfni og truflunin er lítil. Oft versna einkenni með aldri og greiningin kemur þá ekki fyrr en löngu síðar.


Röskunum skipt í hópa


Þessum persónuleikaröskunum er skipt upp í nokkra hópa ef kalla má og er fyrst að telja þær sem byggja á ákveðnum aðsóknar- eða ofsóknarhugmyndum (paranoid). Þar sem viðkomandi finnur fyrir nær stöðugu vantrausti og grunsemdum, án ástæðu, um að aðrir muni gera honum mein, eða koma á hann höggi hvers konar, maki muni halda, eða sé að halda fram hjá og ýmiss konar áhyggjur.

Þetta skapar lélega sjálfsmynd og óöryggi sem kemur fram með ýmsum hætti. Nokkur frekari form eru til, svokölluð schizoid og schizotypal, sem flokka má með þeim fyrri og hafa ákveðin sérkenni tómleika og þess að vilja ekki tengjast öðrum, auk mjög sveiflukenndrar líðanar og skapofsakasta. Tenging við sérstaka hegðun, klæðaburð, hugmyndir og fleira, koma hér einnig fram.

Aðrar persónuleikaraskanir, sem byggja á andfélagslegri hegðun, lygum, stuldi, ofbeldi, lélegri hvatastjórnun og ítrekuðum vandræðum, eru vel þekktar. Þá eru kannski einna algengastar svokallaðar „borderline“ raskanir, sem má líkja við að séu á rófi einkenna óöryggis, hvatahegðunar, skyndiákvarðana og mikilla skapsveiflna, jafnvel sjálfsvígshugsana og einnig áhyggjum af því að verða ein eða yfirgefin.

Talað er um 10 mismunandi gerðir persónuleikaraskana sem hafa allar sín sérkenni, líkt og að ofan er talið, sem þó geta blandast saman og verið flókið að átta sig á nákvæmri sjúkdómsmynd. Dramatísk hegðun og mikil áhrifagirni auk talsverðra sveiflna í skapi, ákvörðunum og gildum er í histrionískum röskunum meginlínan. Á meðan sjálfsánægjuröskun (narcisstic) sýnir fyrst og fremst brenglað innsæi á eigið ágæti og getu, auk hroka.

Það má nefna þá sem glíma við fælni sem megininntak vandans og að forðast fólk, mannamót, vinnustaði og jafnvel nána vini og fjölskyldu. Þá eru þeir sem eru of háðir öðrum og geta með engu móti séð fyrir sér að vera einir eða að geta séð sér farborða. Þessir aðilar fara strax í samband eftir sambandsslit svo dæmi sé tekið. Að lokum eru það þeir sem glíma við þráhyggju og áráttu, sem stóran hluta af hegðunar- og samskiptavanda sínum, stífir og þverir, nískir og með mikla fullkomnunaráráttu.


Sérvitringar og erfiðir


Að þessu sögðu er ljóst að það þarf töluverða lagni við greiningu og nálgun, auk meðferðar. Þeir aðilar sem glíma við slíkar raskanir, hvert sem megininntak þeirra er, eru oft og tíðum vel virkir einstaklingar, sem gengur ágætlega að fóta sig í gegnum lífið. Sumir voru kallaðir sérvitringar á sínum tíma, eða erfiðir, og er ljóst að ekki eru allir í þörf fyrir meðferð. Það er ákveðið róf í þessum röskunum, og spurning hversu afgerandi áhrif á líf og líðan viðkomandi einstaklings og hans fjölskyldu þær hafa.

Ástæður eru arfbundnar og umhverfisþættir á mótunarárum eru lykilatriði, að talið er, í þróun slíkra sjúkdóma. Áfengis- og vímuefnavandi getur haft áhrif.

Greiningarferlið fer fram fyrst og fremst með sögutöku og skoðun. Engar sértækar rannsóknir eru greinandi í raun og veru og lúta blóð- og myndgreiningarrannsóknir fyrst og fremst að því að útiloka aðra sjúkdóma. Meðferðin er margvísleg frá því að vera mjög lítil og fyrst og fremst stuðningur, yfir í þunga lyfjameðferð auk sálfræði- og geðlæknishjálpar, eins og eðlilegt er miðað við flækju og alvarleika hvers máls og einstaklings fyrir sig.