Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, missir hátt í sex prósenta persónufylgi í nýrri könnun sem Maskína framkvæmdi á dögunum 6. til 11. maí síðastliðinn.

Maskína hefur ekki áður í aðdraganda komandi kosninga kannað persónufylgi oddvita framboðanna í Reykjavík en miðað við könnun Prósent fyrir Fréttablaðið sem birt var á miðvikudag dalar persónufylgi Dags B. úr 34 prósentum niðurí 28,1 prósent.

Svarendur könnunar Maskínu voru 1.012 talsins og sögðust 243 einstaklingar vilja halda Degi B. sem borgarstjóra. Á eftir honum kemur Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins, en hún nær 19,8 prósenta fylgi sem er nokkrum prósentustigum meira en í fyrrnefndri könnun Prósents þar sem hún mældist með 16 prósent.

Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknar, er í könnun Maskínu með sama fylgi og í Prósent könnuninni eða 15,1 prósent

Af 1.012 manns svöruðu 147 ekki eftirfarandi spurningu.
Fréttablaðið/Maskína

Samkvæmt niðurstöðum Maskínu eru konur líklegri til að kjósa Dag B. en karlar og þá er Hildur líkmlegri til að njóta fylgis karla en kvenna.

Hátt í fjörutíu prósent svarenda sem vilja halda Degi B. sem borgarstjóra eru með háskólapróf og með tekjur frá 800 þúsundum upp í 999 þúsund.

Fólk með 1.200 þúsund krónur í tekjur eða hærra kusu frekar Hildi, eða 33,3 prósent.

Dagur B. er vinsælastur hjá aldurshópnum 60 ára og eldri á meðan Hildur höfðar frekar til svarenda á aldrinum 50 til 59 ára.

Þá er Einar Þorsteinsson er vinsælastur á meðal svarenda á aldrinum 40 til 60 ára.