Varaforseti Bandaríkjanna, Mike Pence, hyggst ræða „innrásir“ Kína og Rússlands inn á norðurslóðir í heimsókn sinni til Íslands í næstu viku. Þetta sagði háttsettur embættismaður Trump stjórnarinnar í samtali við Reuters fréttastofuna.

Bandaríkjastjórn á að hafa lýst yfir áhyggjum sínum yfir umsvifum Rússa á norðurslóðum. Einnig telur stjórnin mikilvægt að fylgjast náið með aðgerðum Kínverja á svæðinu. Bráðnun jökla á norðurhjara veraldar þýði bætt aðgengi að steinefnum og auðlindum sem áður var ekki hægt að nálgast sem bæti gráu ofan á svart að mati stjórnarmanna.

Leyndur fundur

Embættismaðurinn sem deildi umræddum upplýsingum ræddi við hóp fréttamanna gegn nafnleynd og sagði víst að umræða um Rússland og Kína á norðurslóðum myndi koma upp í Íslandsheimsókn Pence. „Hluti af samtölum okkar þar munu beinast að þjóðaröryggi,“ sagði hann að lokum.

Pence er væntanlegur til landsins þriðja septem­ber næst­komandi í opin­berri heimsókn.

Mikilvægi Íslands

Komið hefur fram að vara­for­­setinn ætli sér meðal annars að ræða mikil­­vægi landfræði­­legrar legu Ís­lands á norðheimskautssvæðinu, sem og starf­­semi NATO vegna aukinna um­­­svifa Rúss­lands í heims­hlutanum. á mun hann auk þess ræða tækifæri landanna tveggja til að auka við­skipti og fjár­festingar sín á milli.