Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, ætlar sér að ræða um „innrás“ Kínverja og Rússa á norðurslóðir þegar hann kemur hingað til lands í næstu viku. Þetta hafði Reuters eftir embættismanni úr ríkisstjórn Bandaríkjanna í gær.

Samkvæmt fréttinni hafa Bandaríkjamenn áhyggjur af því að Rússar sýni nú árásargjarna hegðun á norðurslóðum þegar aðgengi að auðlindum hefur aukist vegna bráðnunar íss. Einnig þykir Bandaríkjamönnum þörf á að fylgjast náið með Kína.

Á ferðalagi sínu mun Pence einnig ferðast til bæði Bretlands og Írlands. Hyggst hann ræða við Boris Johnson, breska forsætisráðherrann, um meðal annars hvernig Bretum gengur að ganga út úr Evrópusambandinu. Á Írlandi stendur til að funda með Leo Varadkar forsætisráðherra og reyndar ferðast líka til bæjarins Shannon en þangað getur Pence rakið ættir sínar.