Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, hefut tilkynnt flokksmönnum sínum að hún muni senda ákærurnar tvær gegn Donald Trump Bandaríkjaforseta til öldungadeildarinnar að því er fram kemur í frétt New York Times.

Í frétt Times kemur fram að Pelosi hafi fundað með flokksfélögum í morgun þar sem hún greindi frá ákvörðun sinni um að láta til skarar skríða á morgun. Demókratar höfðu lýst yfir vonbrigðum í garð Pelosi fyrir að senda ekki inn ákærurnar fyrr.

Þann 19. desember síðastliðinn samþykkti fulltrúadeildin að ákæra Trump til embættismissis fyrir misbeitingu á valdi, þar sem hann setti skilyrði fyrir fjárhagsaðstoð til Úkraínu, og að hindra framgang þingsins, þar sem hann neitaði að leggja fram skjöl til fulltrúadeildarinnar og meinaði starfsmönnum Hvíta hússins að bera vitni. Hægt er að lesa nánar um Úkraínuhneykslið svokallaða í ítarlegri fréttaskýringu Fréttablaðsins hér.

Næsta skref í ferlinu er að senda ákæruna til öldungadeildarinnar þar sem haldin verða rétt­ar­höld, en þar eru Repúblikanar með meiri­hluta. Sé forsetinn fundinn sekur er hann sviptur embætti og getur átt von á ákæru innan dómsvaldsins ef brot hans varða almenn lög. Þá mun varaforsetinn, Mike Pence, taka við sem forseti.